93% handtekinna svört

Mótmælt var fyrir utan lögreglustöðina í Ferguson í gærkvöldi.
Mótmælt var fyrir utan lögreglustöðina í Ferguson í gærkvöldi. AFP

Lögreglumaðurinn sem skaut til bana óvopnaðan átján ára gamlan mann í Ferguson í Missouriríki í Bandaríkjunum verður ekki ákærður. Þetta hefur dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna nú tilkynnt.

Vakti málið heimsathygli og hlutu lögreglumaðurinn, Darren Wilson, og lögregluyfirvöld í bænum mikla gagnrýni í  kjölfarið. Wilson hefur alltaf haldið því fram að hann hafi skotið hinn átján ára gamla Michael Brown í sjálfsvörn þrátt fyrir að Brown væri óvopnaður. Að sögn vitna var Brown uppi með hendur er Wilson hleypti af byssunni.

Hefur málið vakið heita umræðu um kynþáttamismunun í Bandaríkjunum, en Brown var svartur og er Wilson, eins og stór hluti lögreglumanna í Ferguson, hvítur. Alvarlegt ástand myndaðist í Ferguson dagana eftir að Brown var skotinn þar sem mótmælendur kveiktu í bílum og húsum og réðust gegn lögreglu svo eitthvað sé nefnt. Þjóðvarðliðar hafa margoft verið sendir til starfa í Ferguson mánuðina eftir morðið. 

Bandaríska þjóðin klofin í afstöðu sinni

Í nóvember á síðasta ári ákvað kviðdómur að Wilson yrði ekki ákærður fyrir morðið á Brown. Vakti það athygli að samkvæmt skoðana­könn­un sem The Washingt­on Post gerði voru 48% full­orðinna Banda­ríkja­manna sam­mála ákvörðun kviðdóms­ins á meðan 45% sögðust vera ósammála. Það er því nokkuð ljóst að að bandaríska þjóðin er klofin í afstöðu sinni til málsins. 

En með ákvörðun dómsmálaráðuneytisins, sem tilkynnt var í fyrradag, er það alveg öruggt að Wilson verður aldrei ákærður fyrir morðið á Brown.

Í greinargerð ráðuneytisins kemur fram að Wilson hafi ekki skotið Brown af einskærum brotavilja. Jafnframt er ekki hægt að sanna að Wilson hafi brotið á mannréttindum Browns þegar hann skaut hann til bana, að mati nefndarinnar. 

„Vegna þeirra ástæðna sem nefndar eru hér að ofan skortir staðreyndir til ákæru og ætti því að loka málinu,“ segir í greinagerðinni.

Brown var skotinn til bana um miðjan dag við íbúðargötu og í kjölfarið braust út mótmælaalda, oft á tíðum ofbeldisfull. Mótmælt var í fleiri borgum Bandaríkjanna en í Ferguson, þar á meðal New York, Boston og Los Angeles.

Spennt fyrir „alvörubreytingu“

Í yfirlýsingu frá fjölskyldu Browns kemur fram að ákvörðun dómsmálaráðuneytisins sé vonbrigði. Var þó bætt við að fjölskyldan væri spennt að sjá „alvörubreytingu“ er skýrsla dómsmálaráðuneytisins um meinta afstöðu lögreglumanna gegn svörtum í Ferguson yrði gerð opinber. „Ef sú breyting á sér stað mun dauði sonar okkar ekki hafa verið til einskis,“ sagði í yfirlýsingunni.

Í fyrrnefndri skýrslu, sem ríkissaksóknari Bandaríkjanna, Eric Holder, kallar „gagnrýna“ er lögregla Ferguson skoðuð og samskipti hennar við íbúa borgarinnar. Að sögn Holders má þar sjá útbreitt mynstur kynþáttaójafnaðar og fjölmargra brota á mannréttindum borgaranna.

Samkvæmt skýrslunni stöðvuðu lögregluþjónar í Ferguson fólk reglulega án eðlilegrar ástæðu, handtóku án tilefnis og beittu óhóflegu valdi. Í skýrslunni kemur fram að 93% handtekna í Ferguson á árunum 2012 til 2014 voru svört. Jafnframt voru 85% þeirra sem stöðvaðir voru af lögreglu á þeim tíma svört. Af 21.000 íbúum Ferguson eru rúmlega 60% svört.

Nota lögregluna sem innheimtuþjónustu

Réttarkerfi Ferguson er einnig harðlega gagnrýnt í skýrslunni en í henni kemur fram að 68% minni líkur eru á því að mál svartra séu látin niður falla en annarra.

Kom fram í máli Holders að borgaryfirvöld væru jafnframt sek um að nota lögreglusveitir til þess að auka tekjur borgarinnar fremur en að sjá um lög og reglu.

„Þegar kerfið er notað til þess að hámarka tekjur, með sektum í fyrsta lagi, reiðir bærinn sig á lögregluna til þess að starfa sem innheimtuþjónusta,“ sagði Holder.

Ríkisstjóri Missouri, Jay Nixon, segir að skýrslan sé „mjög truflandi“. Borgarstjóri Ferguson, James Knowles, sagði í gær að lögreglufulltrúi sem hafði sent frá sér tölvupóst með kynþáttaníði hefði verið rekinn úr starfi. „Þess háttar hegðun líðst ekki,“ sagði hann. „Við verðum að gera betur, ekki bara í borginni heldur í ríkinu og landinu. Við verðum öll að vinna saman gegn kynþáttamismunun í öllum þáttum samfélagsins.“

Alelda bíll í Ferguson í mótmælum á síðasta ári.
Alelda bíll í Ferguson í mótmælum á síðasta ári. AFP
"Svört líf skipta máli" AFP
Brown er reglulega minnst á staðnum þar sem hann var …
Brown er reglulega minnst á staðnum þar sem hann var skotinn til bana af lögregluþjóni. AFP
Lögreglumenn að störfum við mótmæli í Ferguson.
Lögreglumenn að störfum við mótmæli í Ferguson. AFP
Borgarstjóri Ferguson, James Knowles, segir mikilvægt að allir vinni saman …
Borgarstjóri Ferguson, James Knowles, segir mikilvægt að allir vinni saman gegn kynþáttamismunun. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert