Æðsti herforingi skæruliðasamtakanna Nusra Front í Sýrlandi lést þegar sprengju var varpað á fundarstað hjá helstu herforingjum samtakanna í bænum Salqin, skammt frá landamærum Tyrklands. Nusra Front eru dóttursamtök al-Qaeda-hryðjuverkasamtakanna.
Talsmaður Nusra Front staðfesti í gærkvöldi lát Abus Humams al-Shamis, en hann barðist með al-Qaeda í Afganistan, Írak og nú Sýrlandi.
Heimildir Guardian herma að auk al-Shamis hafi þrír háttsettir herforingjar Nusra Front látist í loftárás Bandaríkjahers og bandamanna á Idlib-hérað. Ekki liggur fyrir hvenær þessi árás átti sér stað.
Dauði hans er mikið áfrall fyrir Nusra sem er nú að leita eftir stuðningi frá arabaríkjunum en Bandaríkjaher hefur haldið uppi árásum á samherja Nusra, Íslamska ríkið, frá því í júlí í Írak og september í Sýrlandi. Eins hafa Bandaríkjamenn beint spjótum sínum að skæruliðum Nusra í Sýrlandi.