Sennilega þeirra hinsti fundur

Serge Atlaoui og eiginkona hans Sabine Atlaoui
Serge Atlaoui og eiginkona hans Sabine Atlaoui AFP

Eiginkona Frakka sem er á dauðadeild í Indónesíu segist ekki trúa því að hún eigi aldrei eftir að hitta hann aftur. Talið er að hann verði tekinn af lífi ásamt nokkrum öðrum útlendingum á næstu dögum.

Serge Atlaoui hefur setið í Nusakambangan-fangelsinu á Jövu síðan hann var dæmdur til dauða fyrir eiturlyfjaframleiðslu árið 2007.

Atlaoui, sem er 51 árs fjögurra barna faðir, var handtekinn skammt frá Jakarta árið 2005 í leyniverksmiðju sem framleiddi e-töflur. Hann hefur setið á bak við lás og slá í tíu ár en hefur alltaf neitað því staðfastlega að hafa átt aðild að glæpnum. Hann hafi aðeins verið að setja upp vélarbúnað í verksmiðju sem framleiddi málningu.

Honum var synjað um mildun refsingar í janúar af forseta Indónesíu, Joko Widodo, en forsetinn er harður stuðningsmaður þess að taka þá af lífi sem gerast sekir um fíkniefnabrot.

Auk Atlaouis verða tveir Ástralir, Andrew Chan og Myuran Sukumaran, sem einnig voru dæmdir til dauða fyrir fíkniefnabrot, teknir af lífi auk eins frá Brasilíu, Filippseyjum, Gana og Nígeríu.

Eiginkona Atlaouis, Sabine, heimsótti hann í fangelsið nú í vikunni og neitar að trúa því að það hafi verið þeirra hinsti fundur. „Auðvitað erum við áhyggjufull,“ segir hún í samtali við AFP- fréttastofuna í hafnarborginni Cilacap, þar sem fjölskyldan þarf að bíða eftir heimild til þess að heimsækja Nusakambangan.

Fangaskipti útilokuð

Sabine Atlaoui
Sabine Atlaoui AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert