Sex hafa nú verið ákærðir fyrir morðið á bresku unglingsstúlkunni Becky Watts. Lík hennar fannst sundurbrytjað í húsi í Bristol. Stjúpbróðir hennar er meðal þeirra sem hafa verið ákærðir. Unnusta hans hefur einnig verið ákærð í málinu fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Í dag voru svo fjórir til viðbótar ákærðir fyrir sinn þátt í morðinu.
Um er að ræða tvo 29 ára gamla karlmenn og tvo 23 ára, að því er fram kemur í frétt Sky um málið.
Watts sást síðast á heimili sínu hinn 19. febrúar. Mikil leit hófst að henni daginn eftir. Hún var sextán ára.
Lögreglan hefur neitað að gefa nokkrar upplýsingar um málið þar sem hún telur slíkt geta spillt fyrir rannsókn málsins.
Frétt mbl.is: Stúlkan myrt með grimmilegum hætti