Tveir handteknir vegna morðsins

Boris Nemtsov.
Boris Nemtsov. AFP

Tveir karlmenn hafa verið handteknir í tengslum við morðið á rússneska stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov. Þetta staðfestir yfirmaður rússnesku öryggisstofnunarinnar, FSB, segir í frétt BBC.

Mennirnir heita Anzor Gubasjev og Zaur Dadajev og voru þeir handteknir í dag. Forstjóri FSB, Alexander Bortnikov, sagði frá handtökunum í rússneska sjónvarpinu. Hann sagði að mennirnir væru báðir frá Kákasus-svæðinu. Rannsókn málsins mun halda áfram.

Sjá einnig: Hverjir dóu og hvernig?

Nemtsov var skotinn til bana á götu í Moskvu í síðustu viku. Hann var á göngu ásamt kærustunni sinni er morðið var framið. Hann var áður varaforsætisráðherra landsins. Hann var 55 ára og ötull gagnrýnandi Vladimírs Pútíns forseta Rússlands.

 Bortnikov gaf ekki frekari útskýringar á tengslum mannanna við morðið en samkvæmt heimildum rússnesku fréttaveitunnar Interfax eru mennirnir grunaðir um að hafa myrt Nemtsov.

Bíll sem þeir óku er þeir frömdu verknaðinn fannst og varð til þess að koma lögreglunni á sporið, samkvæmt heimildum Interfax.

Útför Nemtsov fór fram á þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka