Fyrrverandi lögreglumaður hefur játað aðild að morðinu á rússneska stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov. Tveir menn voru í dag ákærðir fyrir morðið. Annar þeirra, fyrrverandi lögreglumaður frá Tsjetsjeníu, játaði sína aðild.
Fimm menn sem grunaðir eru um morðið komu fyrir dómara í Moskvu í dag, rúmlega viku eftir að Nemtsov var myrtur á götu úti í Moskvu. Hann hafði verið harður gagnrýnandi Vladimírs Pútíns forseta.
Aðeins tveir voru þó ákærðir í dag en hinir þrír eru enn grunaðir um aðild. Þeir eru allir enn í gæsluvarðhaldi.
Zaur Dadajev, sem var lögreglumaður í Tsjetsjeníu og Anzor Gubasjev, sem vann fyrir öryggisfyrirtæki í Moskvu, voru handteknir á sunnudag í sjálfstjórnarhéraðinu Ingúsetíu í nágrenni Tsjetsjeníu. Þeir voru báðir ákærðir en Gubasjev neitaði sök.
Enn hefur ekki verið upplýst hvers vegna þeir myrtu Nemtsov.