Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Margaret Thatcher, vissi að stjórnmálamenn væru að misnota börn en gerði ekkert í málinu. Þetta þingmaður í samtali við Sky-sjónvarpsstöðina.
Þingmaðurinn Simon Danczuk fletti ofan af kynferðisbrotum þingmannsins fyrrverandi, Cyril Smith, á sínum tíma. Hann segir: „Það er engin spurning um það lengur, miðað við það sem við vitum þá lét hún sem hún sæi ekki þetta fólk sem var nokkuð augljóslega barnaníðingar. Það er alveg á hreinu.“
Hann segir þetta svartan blett á ferli Thatcher. Þingmaðurinn segir að stjórnvöld hafi neitað að birta að minnsta kosti fjórar skýrslur um barnaníð á árum áður þar sem þingkosningar nálgist óðfluga en þær fara fram í maí.
„Þeir neituðu að segja frá því hver tilnefndi Cyril Smith til riddaratignar,“ segir Danczuk. „Blaðamaður náði þeim upplýsingum með því að kæra með tilvísunar í upplýsingalög.“
Hann sakar einnig forsætisráðherrann David Cameron og varaforsætisráðherrann Nick Clegg um að taka þátt í yfirhylmingunni. „Cameron hefur sagt að allt verði gert til að upplýsa þetta mál. En hann hefur ekki enn sýnt fram á að það sé það sem hann ætli sér.“
Í frétt Sky kemur fram að Thatcher fékk upplýsingar um barnaníð Smiths áður en hann hlaut riddaratign. Slíka tign fékk hann árið 1988. Í einu bréfi sem fundist hefur meðal gagna sem lögð voru fram er Smith var tilnefndur til riddaratignar, kemur fram að hann hafi m.a. verið rannsakaður í tengslum við ásakanir um kynferðisbrot gegn ungum piltum á árunum 1961-1966. Í bréfinu kemur hins vegar einnig fram að saksóknari hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri nægt tilefni til ákæru í málinu.
Smith lést árið 2010, 82 ára gamall.