Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa kallað sendiherra sinn heim frá Stokkhólmi eftir að utanríkisráðuneyti Svíþjóðar tilkynnti um að vopnasölusamningur ríkjanna yrði ekki endurnýjaður.
Í samtali við AFP fréttastofuna segir talsmaður stjórnvalda í Sádi-Arabíu að ekki sé verið að slíta stjórnmálasambandi við Svíþjóð heldur aðeins verið að kalla sendiherrann heim.
Forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven, tilkynnti seint í gærkvöldi að vopnasölusamningurinn yrði ekki framlengdur og kemur tilkynningin í kjölfar þess að utanríkisráðherra Svíþjóðar, Margot Wallström, var ekki lengur velkomin á ráðstefnu Arababandalagsins. Voru það Sádar sem komu í veg fyrir að hún myndi ávarpa ráðstefnuna vegna afstöðu hennar í mannréttindamálum.