Lögreglustjórinn í Ferguson í Missouri hefur sagt af sér í kjölfar skýrslu sem sýnir að lögregluþjónar borgarinnar mismuni borgurum eftir kynþætti.
Í skýrslunni, sem gerð var af dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna kemur m.a. fram að 93% handtekinna í Ferguson á tveggja ára tímabili voru svört. Jafnframt voru 85% þeirra sem stöðvaðir voru af lögreglu svört. Sjö mánuðir eru síðan hvítur lögreglumaður skaut óvopnaðan svartan átján ára mann til bana í borginni.
Vakti það mál heimsathygli og hlutu lögreglumaðurinn, Darren Wilson, og lögregluyfirvöld í bænum mikla gagnrýni í kjölfarið. Wilson hefur alltaf haldið því fram að hann hafi skotið hinn átján ára gamla Michael Brown í sjálfsvörn þrátt fyrir að Brown væri óvopnaður. Að sögn vitna var Brown uppi með hendur er Wilson hleypti af byssunni.
Wilson verður ekki ákærður fyrir morðið á Brown.
Ríkisstjóri Missouri, Jay Nixon, hefur sagt að skýrsla dómsmálaráðuneytisins sé „mjög truflandi“.
Lögreglustjórinn heitir Thomas Jackson og fetar hann í fótspor annarra yfirmanna í réttarkerfi borgarinnar með því að segja af sér.