Lögreglumennirnir tveir sem særðust skotsári við mótmælaaðgerðir í borginni Ferguson í gærkvöldi eru ekki í lífshættu. Samfélagið í bænum er á nálum vegna árásarinnar og óttast er að ofbeldisaðgerðir blossi upp aftur eftir kyrrð að undanförnu.
Lögreglumennirnir særðust alvarlega er skotið var á þá við mótmæli fyrir utan lögreglustoð bæjarins. Fólk sem kom saman til friðsamlegra mótmæla heldur því fram að einhverjir þeim að baki hefðu skotið í átt að stöðinni með fyrrnefndum afleiðingum.
Atvikið hefur vakið óhug bæði í röðum lögreglunnar og meðal íbúanna. Var lífið í Ferguson smám saman að komast í eðlilegt horf eftir margra mánaða mótmæli í framhaldi af því að lögreglumaður skaut 18 ára dreng, Michael Brown, í ágústmánuði í fyrra. Dómstólar sáu enga ástæðu til að refsa lögreglumanninum Darren Wilson þótt hann hefði skotið Brown sem var óvopnaður.
Eftir nokkurra mánaða kyrrð braust reiði aftur fram í síðustu viku eftir að birt var óvægin skýrsla dómsmálaráðuneytisins um mannréttindabrot í bænum. Þar var dregið fram viðvarandi kynþáttahatur af hálfu lögreglumanna og embættismanna Ferguson. Ennfremur var það niðurstaða ráðuneytisins að lögreglan hefði brúkað alltof harkalegar aðferðir við að halda uppi röð og reglu í bænum. Loks hafi óeðlilega mikil afskipti verið höfð af þeldökkum íbúum.
Í framhaldi af birtingu skýrslunnar hafa þrír háttsettir menn sagt af sér. Þar á meðal framkvæmdastjóri borgarinnar og lögreglustjórinn, Thomas Jackson, sem hafði legið undir þrýstingi mánuðum saman um að segja af sér en lét loks verða af því í gær.
Dómsmálaráðherra Bandaríkjanna sakaði lögregluna í Ferguson í síðustu viku um að hafa með framferði sínu breytt bænum í „púðurtunnu“. Bæjarbúar eru á nálum en vona að hún springi ekki, þrátt fyrir atburðina í gærkvöldi.