Tveir lögreglumenn voru skotnir í bandaríska bænum Ferguson í nótt eftir að óeirðir brutust út í kjölfar frétta af afsögn lögreglustjóra bæjarins í gærkvöldi. Báðir eru þeir á sjúkrahúsi og með meðvitund en annar þeirra fékk skot í öxlina og hinn í andlitið.
Lögreglumennirnir voru skotnir skammt frá lögreglustöð bæjarins en þar hafði fjölmenni komið saman til þess að fagna afsögn lögreglustjórans, Thomas Jackson. Afsögn hans kemur í kjölfar skýrslu sem sýnir að lögreglan mismuni fólki eftir kynþætti.
Í skýrslunni, sem gerð var af dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna kemur m.a. fram að 93% handtekinna í Ferguson á tveggja ára tímabili voru svört. Jafnframt voru 85% þeirra sem stöðvaðir voru af lögreglu svört.
Síðasta sumar var unglingspiltur, Michael Brown, skotinn til bana af lögreglumanni, Darren Wilson, í bænum. Brown var óvopnaður og brutust út óeirðir í Ferguson og víðar í kjölfarið þar sem lögregluofbeldi gagnvart svörtum var harðlega gagnrýnt. Wilson var ekki ákærður fyrir dauða piltsins.
Þegar drápið á Brown var tekið fyrir í réttarsal sagði saksóknarinn Robert McCulloch að kviðdómurinn hefði hlýtt á vitnisburð tuga manna sem segðust hafa séð atburðinn. Vitnisburður þeirra væri hins vegar mjög misvísandi og samræmdist í sumum tilvikum ekki niðurstöðum sérfræðinga í réttarvísindum. Í þeim tilvikum væru sönnunargögnin í málinu álitin áreiðanlegri en misvísandi vitnisburður. Nokkur vitnanna sögðust t.a.m. hafa séð lögreglumanninn skjóta Michael Brown í bakið, en engin skotsár fundust á baki hans.
McCulloch segir að lögreglumaðurinn hafi verið í eftirlitsferð í bíl þegar hann hafi séð Brown og vin hans ganga á miðri götu í Ferguson. Hann hafi þá séð að lýsing á manni, sem var grunaður um rán, passaði við Brown og því ákveðið að stöðva hann. Að sögn vitna upphófst þá rifrildi milli þeirra og lögreglumaðurinn sagði að Brown hefði teygt sig inn í bílinn og gripið í byssu hans. Lögreglumaðurinn skaut tveimur skotum inni í bílnum og Brown særðist á þumli. Við læknisskoðun kom síðar í ljós að lögreglumaðurinn var bólginn og marinn á andliti, að því er virtist eftir ryskingar.
Þegar Brown hljóp í burtu fór lögreglumaðurinn úr bílnum og skaut tíu skotum til viðbótar. Brown mun hafa snúið við eftir að lögreglumaðurinn hleypti af byssunni. Hann varð fyrir alls sjö skotum, m.a. í höfuðið.
Nokkur vitnanna sögðu Brown hafa lyft höndunum upp fyrir höfuðið en saksóknarinn sagði það stangast á við niðurstöður réttarlækna og frásagnir annarra vitna.
Drápið leiddi til mótmæla og óeirða í Ferguson í ágúst og vakti umræðu um hvort lögreglumenn í Bandaríkjunum beittu blökkumenn harðræði og misrétti. Mikil óánægja hafði verið meðal íbúa Ferguson í garð lögreglunnar vegna meintrar kynþáttamismununar. Af 53 lögreglumönnum bæjarins eru aðeins þrír blökkumenn, þótt 67% íbúa bæjarins séu blökkumenn og 29% hvítir menn.