Tvítugur karlmaður sem er ákærður fyrir að hafa skotið tvo lögreglumenn í mótmælum í bænum Ferguson í Bandaríkjunum segist ekki hafa ætlað sér að skjóta. Hann hafi miðað á mann sem hann átti í illdeilum við. Lögreglan hefur efasemdir um skýringar mannsins.
Rannsókn á málinu stendur enn yfir en lögreglan telur að fleira fólk hafi verið í bílnum sem Jeffrey Williams skaut úr á fimmtudag. Williams hefur meðal annars verið ákærður fyrir alvarlega líkamsárás vegna málsins.
Atvikið átti sér stað snemma morguns á fimmtudag í síðustu viku í lok mótmæla sem höfðu staðið yfir um nóttina vegna dráps lögreglunnar í bænum á hinum 18 ára gamla Michael Brown í ágúst.