Lance Armstrong verður á gamalkunnum slóðum er hann hjólar á sumri komanda á keppnisleiðum Frakklandsreiðarinnar, hjólreiðakeppninnar Tour de France.
Armstrong snýr þó ekki aftur til keppni enda í ævilangri útskúfun frá því. Hann hefur hins vegar fallist á að hjóla nokkrar dagleiðir sumarsins með fyrrverandi enska knattspyrnumanninum Geoff Thomas í fjáröflunarskyni.
Thomas hefur sett sér það sem markmið að hjóla allar dagleiðir Frakklandsreiðarinnar í ár deginum áður en hjólagarparnir spretta úr spori á þeim. Um er að ræða þriggja vikna hjólatúr.
Thomas safnar fé til styrkar líknarfélaginu Cure Leukaemia sem lætur sig varða málefni hvítblæðissjúklinga. Hann gerði sér á dögunum ferð til Texas í Bandaríkjunum og sótti heim hjólameistarann fyrrverandi sem vann Frakklandsreiðina sjö sinnum en er fallinn af stalli og sviptur öllum titlum vegna lyfjanotkunar í keppni.
Thomas neitar því að Armstrong hafi átt hugmyndina að þátttöku sinni í fjáröflunartúrnum í þeim tilgangi að lappa upp á ímynd sína. „Hugmyndin var mín, það er ég sem er að nota Lance. Ég gekk á eftir honum, flaug til Texas í því sambandi og hef sannfært hann um að taka þátt í þessu,“ segir Thomas sem var fyrirliði Crystal Palace fótboltaliðsins á sínum tíma. Hann veiktist af hvítblæði en komst yfir sjúkdóminn og læknaðist.
„Ég held það sé bara til góðs að fá hann aftur til baráttunnar gegn krabbameini. Hafi ég rangt fyrir mér, þá gekk mér bara gott eitt til,“ bætti hann við.
Það var lækning Armstrongs af krabbameini sem varð Thomas innblástur. Hefur hann hjólað dagleiðir Tour de France daginn fyrir keppni frá árinu 2005 í þágu góðgerðarmála. Fyrsta árið aflaði hann 250.000 punda, á sjötta tug milljóna, sem rann til að styrkja rannsóknir á hvítblæði á Queen Elizabeth sjúkrahúsinu í London. Með hjólatúr sínum á komandi sumri vonast Thomas til að afla hvítblæðissamtökunum Cure Leukaemia einni milljón punda, yfir 200 milljónir króna.