Öll þróun þurrkaðist út

AFP

Fellibylurinn Pam hefur þurrkað út alla þróun á eyjaklasanum Vanuatu, segir forseti landsins.

Talið er að í það minnsta átta manns hafi látið lífið þegar fellibylurinn Pam gekk yfir Vanuatu-eyjarnar í Suður-Kyrrahafi á föstudag og laugardag. Forseti ríkisins segir að flestir íbúarnir hafi misst heimili sín. Tjónið er gríðarlegt.

Fellibylurinn olli mikilli eyðileggingu og er talið að allt að 90% húsa í Port Vila, höfuðborginni, þar á meðal skólar og sjúkrahús, hafi orðið fyrir skemmdum.

Aðeins um 267 þúsund manns búa í ríkinu, sem nær yfir 65 litlar eyjar. Heilu þorpin eru rústir einar, rafmagn er óstöðugt og fráveitur óvirkar, svo dæmi séu tekin. Vindhraðinn fór upp í um 70 metra á sekúndu og þá fylgdi úrhellisrigning fellibylnum.

Baldwin Lonsdale, forseti Vanuatu, hefur beðið erlend ríki og alþjóðastofnanir um hjálp. Fyrstu flugvélarnar með hjálpargögn komu á svæðið í gær, frá Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Þá hafa Bretland og Frakkland auk Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins einnig lofað að rétta hjálparhönd.

Samkvæmt BBC telja hjálparstofnanir að skemmdirnar sem urðu í óveðrinu nú séu þær verstu í sögunni á þessum slóðum.

AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert