Yfirvöld í Frakklandi, Þýskalandi og Ítalíu hafa staðfest að þau muni eiga aðild að nýjum kínverskum fjárfestingarbanka (AIIB) sem mun fjárfesta í innviðum Asíuríkja.
Litið er á AIIB sem beinan keppinaut Alþjóðabankans, sem Bandaríkjamenn ráða, og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Stofnun hans og þátttaka Vesturveldanna er talin vonbrigði fyrir bandarísk stjórnvöld.
Í síðustu viku tilkynntu Bretar fyrstir vestrænna þjóða að þeir ætluðu að gerast stofnaðilar í AIIB-bankanum. Sagði breska stjórnin það vera í þágu breskra hagsmuna en Bandaríkjamenn gagnrýndu þetta framtak Breta.
Þýski fjármálaráðherrann Wolfgang Schauble segir Evrópuríkin vilja miðla af langri reynslu sinni til að byggja upp trúverðugan og traustan banka er ýti undir jákvæða hagþróun í Asíu. Talaði hann í nafni Þjóðverja, Frakka og Ítalíu á blaðamannafundi með kínverska aðstoðarforsætisráðherranum Ma Kai í Berlín í gær.