Malcolm Fraser, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, lést í kvöld eftir stutt veikindi 84 ára að aldri. Fraser var fæddur árið 1930 og var forsætisráðherra landsins 1975-1983.
Fraser tók fyrst sæti á ástralska þinginu árið 1955 þegar hann var 25 ára að aldri. Hann tók fyrst sæti í ríkisstjórn árið 1966. Hann varð varnarmálaráðherra 1969 og var talinn líklegur til þess að taka við sem leiðtogi Frjálslynda flokksins eftir kosningaósigur flokksins árið 1972 en laut í lægra haldi fyrir Billy Snedden. Fraser bauð sig síðan gegn Snedden árið 1975 og hafði þá sigur.
Fraser varð forsætisráðherra sem fyrr segir árið 1975 og í kjölfarið vann hann stærsta kosningasigur sem stjórnmálaflokkur hefur unnið í áströlskum stjórnmálum í næstu þingkosningum. Hann sigraði einnig í kosningumum 1977 og 1980 en beið hins vegar ósigur fyrir Bob Hawke, leiðtoga Verkamannaflokksins, árið 1983. Hann sagði í kjölfarið skilið við stjórnmálin síðar sama ár.