Bandaríska leikkonan og leikstjórinn Angelina Jolie greindi frá því í dag að hún hefði látið fjarlægja eggjastokka og eggjaleiðara sína vegna ótta við að fá krabbamein.
Fyrir tveimur árum fór Jolie í tvöfalt brjóstnám vegna þess hversu miklar líkur voru á að hún fengi brjóstakrabbamein.
Leikkonan, sem missti móður sína, ömmu og náfrænku úr krabbameini, tilkynnti um þetta í grein sem hún skrifar í New York Times í dag.
Í grein sem hún ritaði í NYT fyrir tveimur árum um brjóstnámið sagði hún að móðir hennar hefði látist af völdum brjóstakrabba 56 ára að aldri og að hún væri arfberi gensins BRCA1, sem ylli því að líkurnar á að hún fengi sjúkdóminn væru 87%, en eftir brjóstnámið væru líkurnar 5%. Genið veldur einnig því að 50% líkur eru á því að Jolie fái krabbamein í eggjastokka.
„Þegar ég vissi að þetta var minn veruleiki ákvað ég að taka málin í eigin hendur og minnka áhættuna eins mikið og mér var unnt. Ég ákvað að fara í tvöfalt brjóstnám,“ skrifar Jolie. „Ég byrjaði á brjóstunum, þar sem hættan á því að ég fái brjóstakrabbamein er meiri en hættan á krabbameini í eggjastokkum og sú aðgerð er einnig flóknari,“ sagði Jolie í fyrri greininni.
Jolie segir í greininni sem birtist í dag að fyrir tveimur vikum hafi hún fengið símtal frá lækni sínum varðandi niðurstöður úr blóðrannsókn. Þar kem í ljós að CA-125 (það er próteinið sem er mælt þegar skimað er fyrir krabbameini í eggjastokkum) sé eðlilegt hjá henni. Hún segist hafa andað léttar en hún fari í slíka blóðrannsókn á hverju ári vegna krabbameinssögu fjölskyldunnar.
„En það var ekki allt og hann hélt áfram,“ skrifar Jolie. Læknirinn sagði henni að það væru önnur merki sem sýndu að það væri möguleiki á að hún væri með krabbamein á byrjunarstigi. Læknirinn hvatti hana því til þess að hafa strax samband við kvensjúkdómalækni til þess að rannsaka eggjastokkana.
„Í huganum fór ég yfir alls konar hluti sem ég get ímyndað mér að þúsundir annarra kvenna hafi gert. Ég sagði mér sjálfri að halda ró og vera sterk. Ég hefði enga ástæðu til þess að ætla annað en ég fengi að fylgjast með börnum mínum vaxa úr grasi og eignast barnabörn.“
Angelina Jolie hringdi í eiginmann sinn, Brad Pitt, sem var staddur í Frakklandi. Hann var kominn um borð í flugvél til Bandaríkjanna innan fárra klukkustunda og segir Jolie að það fallega við stundir sem þessar er að upplifa þetta. „Þú veist fyrir hvað þú lifir og hvað skiptir máli,“ skrifar Jolie.
„Þú lítur alveg eins út og hún“.
„Þennan sama dag fór ég að hitta lækninn sem annaðist móður mína. Ég sá hana síðast daginn sem móðir mín lést og hún tárfelldi er hún sá mig,“ skrifar Jolie. „Þú lítur nákvæmlega út eins og hún,“ sagði læknirinn við Jolie sem brotnaði saman. „En síðan brostum við hvor til annarar og ákváðum að við værum komnar saman til þess að takast á við vandamál. Svo við gerðum það og héldum áfram.“
Við ómskoðun kom ekkert óvænt í ljós og segir Jolie að það hafi verið léttir. Því ef það væri krabbamein á ferðinni þá væri það á algjöru frumstigi. Næstu fimm daga reyndi Jolie að lifa eðlilegu lífi og reyndi að halda ró sinni. Þegar niðurstaðan lá fyrir fylltist hún gleði og hamingju því í ljós kom að hún var ekki með krabbameinsæxli. En hún ákvað að nýta tækifærið og gera það sem hún hafði áður verið búin að ákveða: að láta fjarlægja bæði eggjastokka og eggjaleiðara.