Clarkson líklega á leiðinni út

Clarkson tísti í morgun að sjálfur hefði hann ekkert heyrt …
Clarkson tísti í morgun að sjálfur hefði hann ekkert heyrt um hvað yrði. AFP

Guardian hefur sagt frá því að Tony Hall, æðsti yfirmaður BBC, muni greina frá því í dag að samningur miðilsins við sjónvarpsmanninn umdeilda Jeremy Clarkson verði ekki endurnýjaður. Sjálfur tísti Clarkson í morgun að hann hefði ekki heyrt neitt varðandi örlög sín.

Guardian fylgist nú með þróun mála í beinni en fyrr í dag var sagt frá því að það hefði verið niðurstaða rannsóknar á hegðan og framkomu Clarkson að hann hefði ráðist á framleiðanda hins gríðarvinsæla þáttar Top Gear, í kjölfar 20 mínútna langs rifrildis.

Fregnir herma að Clarkson hafi verið ósáttur með mat sem borinn var á borð fyrir hann eftir upptökur í Newcastle.

Meðal þeirra sem hafa lýst yfir beinum eða óbeinum stuðningi við Clarkson, nú eða lýst yfir heimsku BBC kjósi fjölmiðlarisinn að láta hann fjúka, eru David Cameron forsætisráðherra og fjölmiðlamógúllinn Rupert Murdoch.

Meðal þeirra sem hafa verið nefndir sem mögulegir eftirmenn Clarkson eru útvarpsmaðurinn Chris Evans, Stephen Fry, Rowan Atkinson, Alan Partridge og Jodie Kidd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert