Ráðast örlög Clarkson í dag?

Jeremy Clarkson nýtur mikilla vinsælda en er afar umdeildur.
Jeremy Clarkson nýtur mikilla vinsælda en er afar umdeildur. AFP

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á hegðun og framkomu sjónvarpsmannsins Jeremy Clarkson, réðist Top Gear-stjarnan á einn framleiðanda þáttanna í um 30 sekúndur, eftir 20 mínútna langt rifrildi.

Samkvæmt Daily Telegraph munu niðurstöðurnar leiða til þess að Clarkson verður sagt upp störfum af yfirstjórn BBC í dag.

Guardian hefur hins vegar eftir talsmanni breska ríkisfjölmiðilsins að engin ákvörðun hafi verið tekin um framtíð Clarkson, sem var vikið tímabundið frá störfum eftir meint átök við Oisin Tymon á hóteli í norðurhluta Yorkshire eftir upptökur í Newcastle.

Fregnir herma að Clarkson hafi verið síður en svo sáttur við að fá kaldan mat eftir upptökur í stað steikarmáltíðar, en þá hefur því einnig verið haldið fram að uppákomuna megi rekja til erfiðleika við upptökurnar þann daginn.

Samkvæmt Telegraph leiddi rannsókn Ken MacQuarrie, yfirmanns BBC í Skotlandi, í ljós að Clarkson réðist sannarlega á Tymon, eftir að hafa átt í 20 mínútna löngu rifrildi við framleiðandann.

Top Gear nýtur gríðarmikilla vinsælda um allan heim og fastlega er gert ráð fyrir að framleiðslu þáttarins verði haldið áfram, hvort sem Clarkson verður látinn fjúka eður ei. Hins vegar er alls óvíst að meðstjórnendur Clarkson, Richard Hammond og James May, séu tilbúnir til að gefa í án félaga síns.

Nánari umfjöllun um málið er að finna hjá Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert