BBC hefur látið Jeremy Clarkson fjúka. Æðsti yfirmaður ríkisfjölmiðilsins tilkynnti fyrir stundu að samningur sjónvarpsmannsins yrði ekki endurnýjaður. Ekkert var gefið út um framhaldið eða mögulegan eftirmann Clarkson.
„Með mikilli eftirsjá hef ég tilkynnt Jeremy Clarkson í dag að BBC muni ekki endurnýja samning hans,“ segir í yfirlýsingu frá Hall. Hann sagði ákvörðun sína vel ígrundaða og að hún hefði verið tekin eftir fundi með bæði Clarkson og Oisin Tymon, einum framleiðanda Top Gear, sem Clarkson er sagður hafa ráðist á.
Hall sagði að niðurstöður rannsóknar á atvikinu milli Clarkson og Tymon yrðu gerðar opinberar til að gefa fólki innsýn í málið, og ítrekaði að enginn ágreiningur væri uppi um meginatriði þess.
Hann sagði jafnframt að ákvörðunin að endurnýja samning Clarkson ætti ekki að varpa skugga á framlag hans til BBC. Sjálfur væri hann mikill aðdáandi Jeremy og Top Gear.
Hall ítrekaði hins vegar að farið hefði verið yfir ákveðna línu og það gætu ekki gilt einar reglur fyrir einn og aðrar fyrir annan, sem byggðu á stöðu, almannatengslasjónarmiðum eða viðskiptahagsmunum.
Samkvæmt Guardian kemur fram í fyrrnefndri skýrslu að Clarkson réðist að Tymon með svívirðingum og beitti hann ofbeldi þannig að sá á andliti framleiðandans. Gekk hann burtu með bólgna og blóðuga vör.
Í skýrslunni kemur einnig fram að vitni að árásinni greip inni í, en hún stóð í um 30 sekúndur. Tymon svaraði ekki fyrir sig. Clarkson lét óvægnar svívirðingar dynja á framleiðandanum og hótaði m.a. að láta reka hann.
Tymon þurfti að leita aðhlynningar eftir atvikið, var í miklu uppnámi og taldi sig hafa misst starfið.
Þá segir einnig í skýrslunni að Clarkson hafi ítrekað beðið Tymon afsökunar, bæði í smáskilaboðum, tölvupósti og augliti til auglitis. Það var Clarkson sem tilkynnti yfirstjórn BBC um atvikið.