„Tilgangurinn var að eyða flugvélinni“

AFP

Saksóknari í Marseille segir að aðstoðarflugmaðurinn hafi vísvitandi lækkað flug þotu Germanwings sem fórst í frönsku Ölpunum á þriðjudag. 150 létust í slysinu. „Tilgangurinn var að eyða flugvélinni,“ segir Brice Robin, saksóknari og bætir við að ekkert bendi til þess að flugmaðurinn hafi verið í tengslum við hryðjuverkasamtök.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem nú stendur yfir en samkvæmt upplýsingum úr flugrita vélarinnar hafði flugstjórinn yfirgefið flugstjórnarklefann augnabliki áður en aðstoðarflugmaðurinn hóf að lækka flugið. Aðstoðarflugmaðurinn hafi síðan ekki hleypt honum aftur inn í klefann.

Robin nafngreindi flugmanninn en hann hét Adreas Lubitz, 28 ára gamall Þjóðverji og ekkert bendir til annars en að Lubits hafi verið pollrólegur þegar hann vísvitandi lækkaði flugið og brotlenti þotunni í fjalllendi frönsku Alpanna.

Til að mynda hafi andardráttur hans verið eðlilegur og hann hafi ekki sagt orð. Enginn farþeganna hafi vitað hvað væri að gerast fyrr en vélin brotlenti. Flugstjórn í Marseille reyndi ítrekað að ná sambandi við flugvélina án árangurs.

Á blaðamannafundinum lýsti Robin því hvernig algjör þögn hafi verið í flugstjórnarklefanum á meðan flugstjórinn reyndi í örvæntingu að komast þangað inn aftur eftir að hafa skroppið á salernið.

„Við heyrum flugstjórann biðja aðstoðarflugmanninn að taka við stjórn þotunnar og við heyrum á sama tíma hvernig stól er ýtt aftur á bak og hljóð þegar hurð lokast,“ sagði Robin á blaðamannafundinum.

Á því augnabliki stýrir aðstoðarflugmaðurinn flugvélinni og þegar hann er orðinn einn í flugstjórnarklefanum ýtir hann á hnapp og lætur flugvélina lækka flugið. „Slík aðgerð á hæðarstjórntæki er aðeins hægt að framkvæma viljandi,“ segir saksóknari. 

„Ég get ekki sagt að þetta sé sjálfsvíg en það er eðlileg spurning að spyrja,“ sagði Robin skömmu áður en hann sleit blaðamannfundinum en eins og hér kom að framan hafa engin tengsl við hryðjuverkasamtök komið fram. Lubitz hóf störf hjá flugfélaginu árið 2013 og átti að baki tæplega 700 flugtíma.

Samkvæmt Guardian var fjölskylda Lubitz komin til Marseille líkt og aðstandendur flestra þeirra sem voru í vélinni þegar hún fórst. Þau hafa nú yfirgefið borgina eftir að upplýst var um að hann beri ábyrgð á dauða 149 annarra. Fjölskyldur þeirra sem fórust í slysinu hafa verið upplýstar um að flugmaðurinn hafi vísvitandi brotlent flugvélinni.

Icelandair breytir reglum

Þess er ekki krafist hjá þýska flugfélaginu Lufthansa og dótturfélagi þess, Germanwings, að það séu alltaf tveir í flugstjórnarklefanum á sama tíma líkt og bandarískar reglur kveða á um. Þær reglur gilda ekki um öll alþjóðleg flugfélög, meðal annars ekki þau íslensku. 
Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, hefur verið ákveðið að breyta þessum reglum.

„Í ljósi frétta af hugsanlegum ástæðum flugslyssins í Frakklandi í fyrradag hefur Icelandair ákveðið að taka upp þá vinnureglu, í öllu flugi félagsins, að aldrei séu færri en tveir úr áhöfn í flugstjórnarklefanum. Þurfi annar flugmaðurinn að yfirgefa flugstjórnarklefann mun flugfreyja/flugþjónn vera í flugstjórnarklefanum á meðan. Þessi vinnuregla tekur gildi í dag.“

Líkt og fram kom í gærkvöldi þá var aðeins annar flugmaðurinn í flugstjórnarklefanum þegar vélin flaug á fjall og brotlenti. Alls voru 150 í flugvélinni og komst enginn lífs af. Þetta var staðfest af saksóknara sem fer fyrir á rannsókninni á slysinu, Brice Robin. Flugmaðurinn neitaði að hleypa flugstjórnaum inn í klefann á ný og var hann því einn við stjórnvölinn í klefanum.

Flugöryggissérfræðingur CNN fréttastofunnar, David Souciek segir að á sama tíma og bandarísk flugfélög krefjist þess að ef annar flugmaðurinn þarf að yfirgefa flugstjórnarklefann þá þurfi einhver annar úr áhöfn vélarinnar að koma þangað inn á meðan. 

Eðlilegum starfsháttum ekki fylgt

Glenn Winn, sérfræðingur í flugöryggi og leiðbeinandi hjá háskólanum í Suður-Kaliforníu, segir í samtali við Los Angeles Times að ljós sé að eðlilegum starfsháttum hafi ekki verið fylgt í þessari flugferð.

„Þú getur spurt hvaða flugmann sem er, þeir munu gefa þér sama svar,“ segir Winn. „Þeir skilja ekki manneskju eftir eina í flugstjórnarklefanum. Þeir gera það ekki. Það gerir enginn,“ bætir Winn við.

Samþykkið verður að koma frá þeim sem er inni í klefanum

Winn efast ekki um að öryggisreglur þær sem samþykktar voru á Bandaríkjaþingi eftir árásirnar 11. september 2001, hafi verið í gildi í flugvélum Germanwings og Lufthansa. En flugfélagin beita sömu öryggisreglum og bandarísk flugfélög.

Vísar hann þar til þess að ekki er hægt að komast inn í flugstjórnarklefann nema með samþykki frá þeim sem er inni í klefanum. Eins er kveðið á um að dyr klefans séu svo rammgerðar að þær þoli skothríð og sprengjuárás. 

„Ég veit að eftir 11. september þá eru flugstjórnardyr rammgerðustu dyrnar í bandarískum flugvélum,“ segir Anthonu Brickhouse, aðstoðarprófessor í flugöryggi við Embry-Riddle Aeronautical háskólann.

Flugsérfræðingar sem bandarískir fjölmiðlar hafa rætt við eftir að fréttir bárust af því að aðeins annar flugmaðurinn hafi verið inni í flugstjórnarklefanum segja að það sé viðtekin venja hjá flugliðum að setja matarvagninn fyrir framan flugstjórnarklefann þegar annar flugmannanna opnar dyrnar og fer út úr klefanum. Flugliði eigi síðan að vera í flugstjórnarklefanum og opna dyrnar fyrir flugmanninum þegar hann snýr aftur.

„Þetta er hefðbundnir starfshættir sem Germanwings hefði átt að fylgja,“ segir Winn. Þetta sé ekkert leyndarmál og að allir viti af þessu.

Á vefnum Allt um flug er farið yfir það hvernig læsingarnar eru á dyrum flugstjórnarklefans.

„Stillingarnar sem um ræðir eru UNLOCK, NORM og LOCK.

UNLOCK

UNLOCK aflæsir hurðinni inn í stjórnklefann og þarf að ýta rofanum upp úr NORM-stillingu yfir í UNLOCK á meðan opnað er og tekur sá rofi yfir aðrar aðgerðir á meðan. Grænt ljós birtist á talnaborði og dyrnar opnast.

NORM

Þegar NORM er valið eru dyrnar læstar á meðan þær eru lokaðar en einnig lætur það dyrnar opnast eftir að neyðarkóði hefur verið stimplaður inn en þó með 30 sekúndna biðtíma.

LOCK

LOCK læsir hurðinni algjörlega og hindrar aðgang að stjórnklefanum þrátt fyrir að ýtt sé á talnaborð og kemur upp rautt viðvörunarljós á talnaborði sem gefur til kynna að dyrnar eru læstar. Ef LOCK er valið gildir sú stilling í 20 mínútur þar til hún fer aftur yfir á NORM.

Neyðartilfelli

Ef upp kemur neyðartilfelli þar sem t.a.m. flugliði nær ekki sambandi við flugmenn sem gætu hafa misst meðvitund getur flugliði ýtt á talnaborðið til að óska eftir aðgangi. Ef það dugar ekki til er hægt að stimpla inn neyðarkóða en við það fer í gang viðvörunarhljóð í stjórnklefanum sem gefur flugmönnum tækifæri á því að hindra aðgang áfram með LOCK eða opna dyrnar með UNLOCK,“ segir á vefnum Allt um flug.

Ef engin viðbrögð eru eftir 30 sekúndur frá því að neyðarkóðinn hefur verið sleginn inn fer læsingarkerfið sjálfkrafa yfir á UNLOCK og hefur viðkomandi 5 sekúndur til að fara inn í stjórnklefann en möguleiki er á því að að flugmaðurinn sem var inni í stjórnklefanum hafi komið í veg fyrir að hinn flugmaðurinn, sem brá sér frá, gæti komist aftur inn í klefann.

Þota Germanwings Airbus A320 flaug í 38 þúsund feta hæð á leiðinni frá Barcelona til Þýskalands þegar hún lækkaði flugið niður í 6.800 fet á einungis tíu mínútum yfir fjalllendi frönsku Alpanna. Í átta mínútur áður en vélin brotlenti náðist ekki samband við flugmenn hennar.

Með meira en tíu ára reynslu að baki

Lufthansa hefur upplýst um að flugstjórinn hafi meira en tíu ára reynslu og yfir sex þúsund flugtíma að baki. Hann hafði starfað hjá Germanwings frá því í maí 2014 og áður hjá Lufthansa og Condor. Hinn flugmaðurinn, sem nú hefur verið upplýst um að hafi vísvitandi valdið slysinu, hafi starfað hjá félaginu frá því í september 2013 og eigi að baki 630 flugtíma. Upplýsingafulltrúar flugfélaganna hafa ekki viljað upplýsa nánar um það hverjir flugmennirnir eru.

Lufthansa hefur ekki viljað tjá sig um fréttir NYT og AFP en segir að reglur varðandi viðveru í flugstjórnarklefa séu í samræmi við reglugerð þýskra flugmálayfirvalda. Samkvæmt þeim þá eiga báðir flugmennirnir, það ef þeir eru tveir, að vera í flugstjórnarklefanum en annar þeirra megi yfirgefa hann í mjög skamma stund.

Samkvæmt BBC hafa einhver flugfélög bætt við þeirri reglu að ef annar þeirra þarf að fara út úr klefanum þá verði annar úr áhöfn flugvélarinnar að koma þangað inn í hans stað. Þessu sé hins vegar ekki þannig farið hjá Lufthansa og nokkrum öðrum stórum flugfélögum.

Mega skreppa úr klefanum samkvæmt íslensku reglunum

Íslenska reglugerðin varðandi almannaflug segir að við flugtak og lendingu skulu allir flugliðar, sem krafist er að séu á flugvakt í stjórnklefa, vera í vinnureitum sínum.

„Á flugleið skulu allir flugliðar, sem krafist er að séu á flugvakt í stjórnklefa, vera í vinnureitum sínum nema þeir þurfi óhjákvæmilega að bregða sér frá vegna skyldustarfa við starfrækslu flugvélarinnar eða til að sinna líkamlegum þörfum sínum.“

Hjá Wow fengust þær upplýsingar hjá Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa, „að félagið fylgi alþjóðlegum stöðlum og er þetta ekki í okkar verkferlum í dag en verkferlar okkar eru auðvitað í sífelldri endurskoðun.“

AFP
AFP
Nöfn nemandanna sem fórust með flugvélinni
Nöfn nemandanna sem fórust með flugvélinni AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert