Amanda Knox og Raffaele Sollectio voru sýknuð af Hæstarétti Ítalíu. Knox og Sollectio hafa þegar setið fjögur ár í fangelsi fyrir morð á breska háskólanemanum Meredith Kercher. Rudy Guede, sem einnig var dæmdur vegna morðsins, afplánar 16 ára fangelsisdóm.
Ákvörðun Hæstaréttar Ítalíu sýknuðu tvímenningana eftir tíu klukkustunda umhugsun. Ákváðu dómararnir einnig að ógilda fyrri dóm yfir parinu og hafa hafnað því að málið verði tekið upp að nýju. Þannig er endanleg niðurstaða komin í mál sem annars hefði getað dregist í áraraðir.
Kercher var 21 árs gamall háskólanemi frá Surrey í Englandi. Hún var beitt kynferðislegu ofbeldi og stungin til bana í svefnherberginu sínu árið 2007 í Perugia, Ítalíu, þar sem hún var í námi. Amanda Knox sem er frá borginni Seattle í Bandaríkjunum var meðleigjandi Kercher. Hún og þáverandi kærasti hennar, Raffaele Sollecite, eyddu fjórum árum í fangelsi fyrir morðið en árið 2011 voru þau sýknuð.
Knox sneri aftur til Bandaríkjanna áður en áfrýjunardómstóll felldi sýknunina úr gildi í fyrra og var því ekki við réttarhöldin. Hún hafði áður sagt að yrði hún fundin sek þyrfti að draga hana öskrandi og sparkandi aftur til Ítalíu.
Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag talaði Giulia Bongiorno, lögmaður Sollectio, í tvær klukkustundir við réttarhöldin. Sagði hún skjólstæðing sinn saklausan og að lífssýni úr Sollectio sem fundust á brjóstahaldara Kercher sé ekki nothæft sönnunargagn þar sem illa hafi verið gengið um morðvettvanginn. Ekkert annað lífssýni úr Sollectio fannst í herberginu þar sem unga konan var myrt.