Örlög Amöndu Knox og Raffaaele Sollecito ráðast í dag en þá mun Hæstiréttur á Ítalíu kveða upp dóm sinn í máli þeirra. Þau voru dæmd til 28 ára og 25 ára fangelsisvistar í janúar í fyrra fyrir morðið á hinni bresku Meredith Kercher árið 2007.
Áður var talið að ákvörðunar Hæstaréttar væri að vænta á miðvikudag en dómarar í málinu ákváðu að gera breytingu til að gefa lögmönnum og saksóknara nægan tíma til að greina frá röksemdum sínum.
Kercher fannst myrt í stúdentahúsnæði sem hún deildi með Knox í nóvember árið 2007. Hafði hún verið skorin á háls og lá hálfnakin í eigin blóði. Hún hafði verið stungin 47 sinnum.