„Sárið mun aldrei gróa“

Raffaele Sollecito á blaðamannafundi í dag.
Raffaele Sollecito á blaðamannafundi í dag. AFP

„Í dag líður mér eins og fanga sem hefur eftir sjö ár og fimm mánuði fengið frelsið að nýju,“ segir Raffaele Sollecito sem ásamt Amöndu Knox var sýknaður af morðinu á bresku stúlkunni Meredith Kercher árið 2007. Hæstiréttur Ítalíu kvað upp sýknudóminn á föstudag en málið hefur farið fram og til baka í ítalska dómskerfinu í fleiri ár. Parið sat í um 4 ár í fangelsi vegna málsins á sínum tíma. 

Sollecito sagði á blaðamannafundi í dag að hann væri þakklátur fjölskyldu sinni fyrir stuðninginn. Hann sagðist hafa verið sakaður um að vera morðingi án þess að sönnunargögn hafi legið fyrir.

„Fyrir mér er þetta eins og endurfæðing,“ sagði hann um sýknudóminn. „Sjö ár og fimm mánuðir eru mjög langur tími þegar maður þjáist, þegar maður lifir í harmleik. Ég var örvæntingarfullur. Ég get ekki sagt að ég þjáist ekki lengur. Ég finn enn sársauka. En ég á ekki von á því að ég verði kallaður morðingi héðan í frá og ég er tilbúinn að verja heiður minn.“

Sollecito og Knox voru kærustupar er morðið var framið. Kercher var herbergisfélagi Knox og fannst hún látin í íbúð þeirra í Perugia á Ítalíu árið 2007.

Knox og Sollecito voru í fyrstu sakfelld fyrir aðild að morðinu og voru í fjögur ár í fangelsi á Ítalíu.

Sollecito segist nú íhuga að skrifa bók um sína hlið á málinu. Það verði þó ekki strax, ef af því verður yfir höfuð. „Þetta hefur haft áhrif á hjarta mitt, áhrif á huga minn. Það mun ávallt blæða úr þessu sári og mér finnst eins og það muni aldrei gróa.“

Knox og Sollecito héldu ætíð fram sakleysi sínu. Þau sögðust hafa eytt kvöldinu sem morðið var framið saman á heimili Sollecito.

Rudy Guede var einnig ákærður og sakfelldur fyrir morðið. Hann situr enn í fangelsi.

Raffaele Sollecito á blaðamannafundinum í dag.
Raffaele Sollecito á blaðamannafundinum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert