Kókaíni smyglað með farþegaskipum

Costa Concordia
Costa Concordia AFP

Farþegaskipið Costa Concordia var hlaðið af kókaíni sem var í eigu mafíunnar þegar það lagði af stað í sína hinstu för. Skipið strandaði skammt frá eyjunni Giglio á Ítalíu í janúar árið 2012. 32 fórust í slysinu.

Mafían í Kalabríu, 'Ndrangheta, hafði falið mikið magn eiturlyfja, segir í frétt Independent en þar er vísað í samtöl milli liðsmenn mafíunnar sem lögreglan hefur tekið upp.

„Sama skip sem gerði okkur að aðhlátursefni út um allan heim, gerði okkur einnig að fíflum,“ segir yfirmaður 'Ndrangheta, Michele Rossi, í símtali við aðstoðarmann sinn, Massimo Tiralongo, samkvæmt upptökum lögreglunnar sem rannsaka viðskipti mafíunnar.

Auk farþegaskipa í eigu Costa Cruises, þá kom 'Ndrangheta kókaíni einnig fyrir um borð í farþegaskipum í eigu MSC og Norwegian Cruise Lines, sem ferðast á milli Evrópu, Norður-Ameríku og Karíbahafsins. Samkvæmt Independent kemur þetta fram í ítalska blaðinu La Repubblica.

Deild lögreglunnar í Flórens sem annast rannsókn á skipulagðri glæpastarfsemi segir að eiturlyfin hafi ekki fundist í flaki skipsins en vitað sé að starfsmenn Costa hafa vitað af efnunum um borð og að mafían hafi verið með að minnsta kosti einn vitorðsmann um borð.

Í febrúar var Francesco Schettino, skipstjóri farþegaskipsins Costa Concordia, var dæmdur í 16 ára fangelsi. Schettino var ákærður fyrir að hafa valdið dauða 32 farþega skipsins; fyrir að hafa valdið skipbroti og fyrir að yfirgefa skipið á meðan áhöfn og farþegar voru enn um borð, þegar það strandaði.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka