Clarkson tekur U-beygju

Clarkson sem andlit herferðar gegn fjárfestingu í jarðefnaeldsneyti..?
Clarkson sem andlit herferðar gegn fjárfestingu í jarðefnaeldsneyti..? AFP

Sjónvarpsmaðurinn Jeremy Clarkson hefur heldur betur tekið U-beygju og hyggst einbeita sér að umhverfismálum eftir að hafa verið sagt upp störfum hjá BBC sem einn stjórnenda bílaþáttarins Top Gear.

Clarkson hefur boðið sig fram sem andlit herferðar Guardian, sem miðar að því að fá Gates-stofnunina og Wellcome-sjóðinn til að láta af fjárfestingum í jarðefnaeldsneyti á næstu fimm árum, en hún ber yfirskriftina Keep it in the ground og er svanasöngur ritstjórans Alan Rusbridger, sem lætur af störfum í sumar.

Hinn umdeildi Clarkson segir að átök hans við framleiðanda Top Gear og uppsögnin sem fylgdi í kjölfarið, hafi vakið hann til umhugsunar um líf sitt, hegðun og kolefnafótspor.

„Þetta var eins og hlé í kappakstri,“ segir hann. „Eina stundina var ég að krúsa á Porsche Cayman S og hlusta á Dark Side of the Moon. En þá næstu var ég í blóðugum Prius að humma með Keane.“

Í stórkostlegri frétt Guardian um málið segir að topparnir hjá BBC hafi kallað saman stríðsráð til að ákvarða framtíð Top Gear. Meðal þeirra sem eru efstir á lista yfir mögulega stjórnendur nýrrar og endurbættrar útgáfu þáttarins er Rowan Williams, fyrrverandi erkibiskup af Canterbury.

Þá kemur einnig fram á vef Guardian að útgáfufyrirtækið Penguin Books hyggist gefa út nýja bók eftir Clarkson á næsta ári, þar sem hann fjallar um umhverfismál, trúmál og femínisma.

Eða hvað..? Nei, um var að ræða aprílgabb Guardian, sem var afar metnaðarfullt að þessu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka