„Nú ert þú við stjórnvölinn“

Rannsókn flugslyssins er í fullum gangi. Frásagnir erlendra fjölmiðla herma …
Rannsókn flugslyssins er í fullum gangi. Frásagnir erlendra fjölmiðla herma að búið sé að fjarlægja allar líkamsleifar hinna látnu af vettvangi. AFP

Franska vikuritið Paris Match hefur birt tímalínu sem lýsir þeirri atburðarás sem átti sér stað í farþegaþotu Germanwings áður en hún fórst í frönsku Ölpunum 24. mars. Tímalínan byggir á raddupptöku sem annar flugriti tók upp í stjórnklefa flugvélarinnar.

Paris Match segir að einn rannsakenda hafi upplýst vikuritið um efni upptökunnar. Auk þess hefur Paris Match og þýska blaðið Bild fengið myndskeið, sem var tekið upp á farsíma, sem sýnir síðustu sekúndurnar um borð í vélinni. Farsíminn fannst í á meðal flugvélabraksins þar sem vélin brotlenti. Alls létust 150 manns.

Tímalínan og lýsing rannsakandans er eftirfarandi:

Klukkan 10:00

Vélin hefur sig til flugs

Klukkan 10:10

Flugstjórinn segir við aðstoðarflugmanninn  Andreas Lubitz: „Ég náði ekki að fara á salernið áður en við lögðum af stað.“ Lubitz svarar: „Farðu þegar þér hentar.“

Klukkan 10:27

Flugvélin nær farflugshæð: 38.000 fetum (11.000 metrum)

Flugstjórinn biður Lubitz um að hefja undirbúning að lendingu og fá það staðfest að vélin geti hafið lendingarferlið. Lubitz hlýðir. Hann segir aftur við flugstjórann: „Þú getur farið. Þú getur farið núna.“

Klukkan 10:28

Hljóð heyrast frá sæti: flugstjórinn hefur losað sætisólarnar. Dyr opnast. Flugstjórinn segir við Lubitz: „Nú ert þú við stjórnvölinn.“

Lubitz svarar að því er virðist í léttur í bragði: „Ég vona það.“

Klukkan 10:30

Lubitz er einn í flugstjórnarklefanum. Hann læsir brynvarinni hurð með því að ýta á hnapp. Nú er ekki lengur hægt að opna dyrnar að utanverðu. Heyra má þegar sjálfsstýring vélarinnar er endurforrituð til að hraða lendingu, á nokkrum mínútum lækkar vélin sig úr 38.000 fetum (11.500 metrum) í 100 fet (30 metra).

Klukkan 10:33

Lendingarferlið hefst. Vélin lækkar sig um 3.000 fet (900 metra) á mínútu. Flugstjórnarmenn verða varir við vandamál. Þeir reyna nokkrum sinnum að ná sambandi við flugvélina í gegnum talstöð. Lubitz svarar ekki. 

Rödd flugstjórans heyris þegar hann reynir að opna dyrnar: „Þetta er ég!“. Flugstjórinn stendur fyrir framan myndavél sem er tengd við flugstjórnarklefann. Lubitz sér hann á skjá en bregst ekki við. Flugstjórinn sækir súrefniskút eða slökkviliðstæki til að brjóta sér leið inn. Lubitz svarar engu. Flugstjórinn heyrist hrópa: „Í guðs bænum, opnaðu þessar dyr!“

Um klukkan 10:34

Fyrsta viðvörunin fer í gang, bæði hljóð og mynd: „ÓEÐLILEGUR LÆKKUNARHRAÐI, HÆKKIÐ FLUGIГ

Lubitz sýnir engin viðbrögð. 

Í gegnum dyrnar að flugstjórnarklefanum má heyra í farþegum hlaupa um á göngum vélarinnar. 

Klukkan 10:35

Flugstjórinn biður um kúbein sem er falið aftast í flugvélinni. Háværari högg heyrast þegar lamið er á hurðinni, í kjölfarið heyrast málmhljóð. Flugstjórinn reynir að þvinga hurðina upp með kúbeininu. 

Klukkan 10:37 

Önnur viðvörun fer í gang, bæði hljóð og mynd: „LANDSLAG, HÆKKIÐ FLUGIÐ.“ Enn sýnir Lubitz engin viðbrögð. 

Flugstjórinn hrópar: „Opnaðu fjárans hurðina!“

Klukkan 10:38

Þrátt fyrir allan hávaðann, þá má heyra vel heyra andardrátt Lubitz í gegnum súrefnisgrímu sem hann hefur sett á sig. Hann andar með eðlilegum hætti. Vélin er nú í 13.000 fetum (4.000 metrum). 

Klukkan 10:40

Mikill hávaði heyrist fyrir utan. Á sama tíma öskur inni í vélinni. Hægri vængur Airbus-flugvélarinnar rekst í fjall. 

Engin önnur hljóð, fyrir utan viðvaranir og öskur farþega. 

Klukkan 10:41

Flugvélin rekst á Estrop-fjall í 5.000 fetum (1.500 metrum) á 800 km hraða. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert