Flugmaðurinn sem talinn er hafa grandað þýsku farþegaþotunni í frönsku Ölpunum vísvitandi leitaði að upplýsingum um sjálfsmorð og dyr flugstjórnarklefa á netinu vikurnar áður en vélin fórst, að sögn þýskra saksóknara.
Spjaldtölva sem saksóknarar segja að flugmaðurinn Andreas Lubitz hafi notað fannst við leit í íbúð hans í Düsseldorf. Leitarsögunni í vefvafra tölvunnar hafði ekki verið eytt og tókst saksóknurum að kalla upp leitarorð sem Lubitz hafði slegið inn á tímabilinu 16.-23. mars.
Þannig hafði Lubitz leitað sér upplýsinga um „læknisfræðilegar meðferðir“, „leiðir til að fremja sjálfsmorð“ og „flugstjórnarklefadyr og öryggisráðstafanir þeirra“.
Alls létust 150 manns þegar Airbus-vél þýska flugfélagsins Germanwings skall á fjallgarðinum á 700 km/klst þriðjudaginn 24. mars. Flugriti vélarinnar hefur leitt í ljós að Lubitz var einn í flugstjórnarklefanum þegar vélin fórst og er talið að hann hafi læst flugstjóra hennar úti þegar hann hafði brugðið sér á salernið.