Seinni flugritinn fundinn

AFP

Seinni flugritinn úr þýsku Airbus farþegaþotunni sem fórst í frönsku Ölpunum í síðustu viku er fundinn eftir níu daga leit. Þetta tilkynntu franskir sansóknarar sem rannsaka málið samkvæmt frétt AFP. Vonast er til að hann varpi betra ljósi á atburðarásina áður en þotan fórst.

Rifjað er upp í fréttinni að fyrri flugritinn hafi fundist sama dag og farþegaþotan fórst og að þar hafi komið fram að flugmaðurinn Andreas Lubitz hafi verið einn í flugstjórnarklefanum í aðdraganda þess að þotan fórst með 150 manns um borð. Talið er að hann hafi notað tækifærið þegar flugstjórinn brá sér út úr klefanum og læst hann úti. Síðan hafi Lubitz flogið farþegaþotunni vísvitandi á fjallgarðinn.

Farþegaþotan skall á fjallgarðinum á um 700 km/klst hraða á klukkustund og er ljóst að allir um borð hafa farist samstundist. Brak úr þotunni dreifðist í kjölfarið yfir stórt svæði auk líkamsleifa þeirra sem um borð voru. Flestir voru frá Þýskalandi en einnig um 50 Spánverjar en farþegaþotan var á leiðinni frá Barselóna á Spáni til Dusseldorf í Þýskalandi. Fyrri flugritinn bendir til þess að farþegarnir hafi ekki gert sér grein fyrir því í hvað stefndi fyrr en síðustu sekúndurnar en þá heyrast öskur þeirra á honum.

Sérfræðingar hafa unnið að því að undanförnu að bera kennsl á líkamleifar sem fundist hafa á staðnum þar sem farþegaþotan fórst. Tekist hefur að finna líkamsleifar flestra og þar á meðal Lubitz. Rannsókn málsins hefur gengið hægt vegna erfiðra aðstæðna í fjalllendinu og hversu víða brak þotunnar og líkamsleifar þeirra sem um borð voru hefur dreifst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert