Ráðast til atlögu gegn al-Shabab

Kenískar orrustuþotur hafa látið sprengjum rigna yfir búðir al-Shabab hryðjuverkasamtakanna í Sómalíu í nótt og morgun. 

Um er að ræða fyrstu aðgerðir kenískra yfirvalda eftir að liðsmenn al-Shabab réðust inn í Garissa háskólann og drápu 148 manns.

Loftárásirnar voru gerðar á tvær búðir al-Shabab í Gedo héraði en skæruliðar fara þar um á leið sinni yfir landamæri Kenía.

Forseti Kenía, Uhuru Kenyatta, hefur lýst því yfir að árásinni á háskólann verði grimmilega hefnt. 

Talsmaður hers Kenía, David Obonyo, segir í samtali við BBC að loftárásirnar hafi hafist í nótt og búðunum tveimur hafi verið eytt.

Árásin á Garissa háskólann, sem er í um 150 km fjarlægð frá landamærum Sómalíu er sú mannskæðasta sem al-Shabab hefur gert í Kenía.

Þingmenn og ríkisstjórar í norðausturhluta Kenía hafa óskað eftir því að Dadaab flóttamannabúðunum, þar sem um hálf milljón flóttamanna frá Sómalíu búa, verði lokað. Segja þeir að al-Shabab noti búðirnar sem þjálfunarbúðir fyrir hryðjuverkamenn og þar samhæfi þeir aðgerðir sínar. Hjálparstofnanir hafa hins vegar hunsað beiðnina en Dadaab flóttamannabúðirnar eru þær stærstu í Afríku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert