Hann var skotinn átta sinnum í bakið af stuttu færi. Hann var svartur. Sá sem skaut var hvítur. Og lögreglumaður. Heimsbyggðin sá hann skotinn til bana á myndbandi, en hver var Walter Scott?
Walter Scott var 50 ára gamall og fjögurra barna faðir. Hann starfaði hjá strandgæslunni, að sögn bróður hans, Anthonys Scotts. „Hann var félagslyndur, kunni vel við alla, var þekktur í samfélaginu enda gat hann látið sér lynda við alla,“ segir bróðir hans í samtali við CNN-sjónvarpsstöðina. „Öll fjölskyldan elskaði hann og börnin hans elskuðu hann.“
Á laugardag stöðvaði lögreglan í Suður-Karólínu bifreið Scotts þar sem ljós á bíl hans var brotið, segir í fréttum bandarískra fjölmiðla. Lögreglumaðurinn skaut Scott átta skotum, en áður hafði hann verið skotinn með rafbyssu. Lögreglumaðurinn hefur nú verið ákærður. Er ákæran m.a. byggð á myndskeiði sem vegfarandi náði af árásinni. Á því má sjá að eftir að Scott er skotinn niður kemur lögreglumaðurinn að honum og handjárnar hann.
Í frétt CNN segir að ekki sé ljóst hvers vegna Scott ákvað að flýja undan lögreglumanninum Michael Slager sem stöðvaði för hans á laugardagsmorgun. Bróðir hans segir að Scott hafi átt í „vandræðum“ með barnameðlag en að hann hafi ekki verið þekktur fyrir ofbeldi.
Í lögregluskýrslunni segir að Scott hafi ekki hlýtt skipunum lögreglumannsins og hafi reynt að taka rafbyssu hans. Slager skaut Scott átta skotum í bakið. Hann var úrskurðaður látinn á staðnum.
„Hver svo sem ástæðan er fyrir því að Scott flúði frá lögreglumanninum þá átti hann ekki skilið dauðadóm,“ hefur CNN eftir lögmanni fjölskyldu Scotts.
Lögreglumaðurinn hefur verið ákærður fyrir morð. Ákæran er m.a. byggð á því sem sést á myndbandinu.
„Þegar ég sá myndbandið í fyrsta sinn ... við fjölskyldan vorum djúpt særð og skiljum ekki að einhver skjóti manneskju á þennan hátt,“ segir bróðir Scotts. „Við bara trúðum því ekki.“
Hér að neðan má sjá myndbandið í fullri lengd. ATHUGIÐ að það er ekki fyrir viðkvæma.