Le Pen gegn Le Pen

Feðginin Marine og Jean-Marie Le Pen
Feðginin Marine og Jean-Marie Le Pen AFP

Leiðtogi Þjóðfylkingarinnar frönsku, Front National, Marine Le Pen, segir að hún muni beita sér gegn því að faðir hennar og stofnandi FN, Jean-Marie Le Pen, verði í framboði fyrir flokkinn í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Í yfirlýsingu sem Marine Le Pen sendi frá sér í dag kemur fram að staða Jean-Marie Le Pen sé einhversstaðar á milli sviðinnar jarðar og pólitísks sjálfsmorðs. Vísar hún þar til ummæla hans sem hafa vakið harða gagnrýni, svo sem varðandi gasklefa nasista ofl. Því geti hún ekki staðið við bakið á honum og muni ekki samþykkja að hann fari í framboð fyrir Þjóðfylkinguna í Provence-Alpes-Côte d’Azur. Hún geti ekki leyft honum að taka flokkinn í gíslingu.

Hún segir að á fundi flokksins þann 17. apríl nk. þar sem ákveðið verður hverjir verði frambjóðendur flokksins í héraðskosningum í desember muni hún ekki styðja við framboð hans.

Jean-Marie Le Pen ítrekaði í síðustu viku ummæli sín um að gasklefarnir sem voru notaðir af nasistum í seinni heimstyrjöldinni hafi verið smámál og allt of mikið hafi verið gert úr þeim. Í tæplega þrjá áratugi hefur hann haldið þessum skoðunum sínum fram og hefur uppskorið hatur af hálfu fjölmargra. En nú virðist hann hafa gengið of langt, segja fjölmiðlar í Frakklandi.

Marine dóttir hans segir að það sé ömurlegt og sorglegt en hún muni boða til fundar með helstu leiðtogum FN til þess að ræða hvað sé flokknum fyrir bestu. „Staða hans sem heiðursforseta leyfir honum ekki að taka Front National í gíslingu, með grófum yfirgangi sem miðar að því að skaða mig og því miður alla hreyfinguna, stjórnendur, frambjóðendur og kjósendur, mjög illa,“ segir Marine Le Pen um föður sinn.

Frá því Marine tók við formennsku í FN árið 2011 hefur hún reynt að aðlaga rödd flokksins að meginstraumum í frönsku samfélagi. Þetta hefur komið flokknum vel og í fyrra fékk Þjóðfylkingin flest atkvæði í Evrópuþingskosningunum í Frakklandi og fjórðung atkvæða í sýslukosningunum.

Le Monde

Liberation

 Figaro

Yfirlýsing Marine Le Pen

Jean-Marie og Marine Le Pen
Jean-Marie og Marine Le Pen AFP
Le Pen feðginin
Le Pen feðginin AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert