„Þetta fólk tók hann frá mér“

Vonir hundraða foreldra um að börn þeirra ættu í vændum betra líf en þau urðu að engu þegar liðsmenn Al-Shabaab-hryðjuverkasamtakanna ruddust inn í  Garissa-háskólann og drápu 148 ungmenni á skírdag.

Guardian fjallar um nokkur þeirra og fjölskyldur þeirra sem syrgja. Veronica Syokau elskaði að synda. Mark Dennis Mutuma elskaði körfubolta og var mikill prakkari sem gat endalaust gert at í vinum sínum. Þau voru bæði drepin með köldu blóði af vígamönnunum.

„Heima hjá mér eru engar kýr. Ég seldi þær til þess að greiða skólagjöldin hans,“ segir Stanley Maina Waiharo, sem missti frumburð sinn, John Mwangi Maina, 22 ára, í árásinni.

„Ég tók lán upp á 200 þúsund shillinga (295 þúsund krónur) til þess að mennta son minn svo hann ætti völ á betra lífi en ég. Þetta fólk tók hann frá mér.“

Maina er skraddari í í bænum Muranga sem er í tveggja klukkustunda fjarlægð frá höfuðborg Kenía, Nairóbí. Hann barðist fyrir því að koma syni sínum til mennta og John er sá fyrsti í stórfjölskyldunni sem lauk framhaldsskóla og hóf nám við háskóla. John var að læra viðskiptafræði við Garissa-háskóla þegar hann var drepinn.

„Þetta er drengur sem var alltaf inni að læra á meðan aðrir voru úti að leika. Hann tók námið mjög alvarlega. Við bundum svo miklar vonir við hann,“ segir Maina í samtali við blaðamann Guardian.

Er þetta útskriftin hans?

Mary Oloo, frænka Peters Odhiambos, 19 ára hagfræðinema, syrgir einnig. „Þessi drengur sem við munum grafa fljótlega ætlaði að aðstoða okkur við að komast í flugferð. Ég hlakkaði svo til að vera við útskrift hans. Er þetta útskriftin hans sem við erum að fara í,“ segir Oloo.

Illa hefur gengið að bera kennsl á fórnarlömbin þar sem mörg líkanna eru illa farin. Mary Oloo segir að það hafi vantað allar tennurnar í munn Peters og eins höfðu augun verið stungin úr honum. En hún þakkar fyrir það að borin hafi verið kennsl á hann því ekki séu allar fjölskyldur ungmennanna sem voru drepin svo heppnar. „Við getum að minnsta kosti grafið okkar dreng,“ segir hún.

Mikil reiði ríkir meðal almennings í Kenía sem telur að stjórnvöld hafi sýnt hryðjuverkasamtökunum allt of mikla linkind í gegnum tíðina og á Twitter er eitt vinsælasta kassamerkið í Kenía #147notjustanumber.

Nemendur við aðra háskóla hafa tekið þátt í mótmælum og krefjast þess að ríkisstjórn 
Uhurus Kenyatta forseta auki viðbúnað og bæti öryggi við skóla landsins. „Við verðum næst,“ segir Walter Mutai, 22 ára tölvunarfræðinemi við Moi-háskólann í Nairóbí. „Þetta fólk getur gert árárás hvar sem er.“

Fjölmargir múslímar tóku þátt í göngu í Garissa í þrúgandi hita í gær og mótmæltu morðunum. Hvetja þeir til þess að sett verði á laggirnar stofnun sem fylgist með öfgahópum og reynt verði að fylgjast betur með þeim sem ganga til liðs við öfgasamtök.

Sögðu að trúin bannaði morð á konum og skutu þær síðan í höfuðið

Fjölmargir fjölmiðlar hafa sagt sögur foreldra og fjölskyldna þeirra sem voru drepnir í árásinni. „Sonur minn, Abel Mukhwana, var sá eini í þorpinu okkar sem hefur komist í háskóla,“ segir Jane Chepkemboi í viðtali við Standard. „Við vorum vongóð um að honum tækist að snúa þróuninni við og auka gæfu samfélags okkar.“

Svo virðist sem árásarmennirnir hafi ekki eirt neinum en meðal þeirra var nýútskrifaður lögfræðingur og sonur embættismanns. Einn þeirra sem lifðu af árásina, Francis Gichohi, 24 ára, segir að árásarmennirnir hafi tælt stúlkurnar út úr stúdentagörðunum með því að segja þeim að trú þeirra bannaði þeim að drepa konur.Þegar stúlkurnar hlýddu þeim og komu út skutu árásarmennirnir þær allar í höfuðið.

AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert