Hnútukast Le Pen heldur áfram

Jean-Marie og Marine Le Pen
Jean-Marie og Marine Le Pen AFP

Varaformaður franska þjóðernisflokksins Front National, Þjóðfylkingin, hvetur stofnanda flokksins, Jean-Marie Le Pen, til þess að segja af sér vegna ummæla sem Le Pen lét falla nýverið um nasista og gasklefa þeirra í seinni heimsstyrjöldinni.

Í gær lýsti dóttir Le Pen og núverandi formaður flokksins, Marine Le Pen, því yfir að hún styddi ekki framboð föður síns í komandi héraðskosningum og gagnrýndi hann harkalega opinberlega.

Lengi hefur verið uppi orðrómur um ósætti þeirra feðgina en það var ekki fyrr en í gær sem það kom upp á yfirborðið og þá með hressilegum hætti. Þar sakaði Marine föður sinn, en hann hefur lengi verið þekktur fyrir umdeild ummæli sín um aðra kynþætti en aría og hatur sitt á innflytjendum, um pólitískt sjálfsvíg með ummælum um að gasklefarnir séu smáræði í sögunni og óskaði eftir nánari samskiptum við Rússa til þess að vernda hvíta fólkið.

Þau feðgin hafa ekki látið þar við sitja heldur hefur hnútukast þeirra haldið áfram á öldum ljósvaka og samfélagsmiðlum. Jean-Marie Le Pen, sem er 86 ára að aldri, heiðursforseti FN, varar við því að flokkurinn geti orðið að engu ef hann verður þvingaður út úr flokknum. Hann segist enn njóta mikils fylgis meðal flokksmanna og hann efist um að Marine geri sér grein fyrir því hversu mikið það er. 

„Það er náttúrlega biluð hugmynd í eðli sínu ef hún felur í sér hættu á hruni,“ segir Le Pen í viðtali við RTL-útvarpsstöðina. Þar var hann að svara ummælum varaformanns flokksins, Florian Philippot, að það væri ágætt ef Le Pen myndi segja af sér og hætta í flokknum.

Philippot hefur hins vegar ekki viljað útiloka eða staðfesta hvort sú hugmynd hafi verið rædd að vísa Le Pen formlega úr flokknum. 

„Marine Le Pen vill mig kannski dauðan, það er mögulegt, en hún má ekki búast við samstarfi frá mér,“ segir Jean-Marie um dóttur sína.

Jean-Marie Le Pen stofnaði FN árið 1972 og hefur ítrekað valdið usla innanlands sem utan. Hann lét það ekki stöðva sig þegar dóttir hans, Marine, tók við formennsku í flokknum árið 2011. Hún hefur umborið ýmislegt en svo virðist sem ummæli hans um gasklefana hafi verið kornið sem fyllti mælinn hjá Marine en hún hefur reynt að losa flokkinn við ímynd rasisma og gyðingahaturs frá því hún tók við formennskunni.

Le Pen gegn Le Pen

Mynd frá 1. maí 1974 Jean-Marie Le Pen með Marine …
Mynd frá 1. maí 1974 Jean-Marie Le Pen með Marine í fanginu á heimili þeirra í París AFP
Jean-Marie Le Pen
Jean-Marie Le Pen AFP
Marine Le Pen
Marine Le Pen AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert