Frans páfi kallaði aðgerðir Ottómansveldisins gegn Armenum árið 1915 „fyrsta þjóðarmorð tuttugustu aldarinnar“ við messu í dag. Páfinn sagði jafnframt að það væri skylda hans að heiðra minningu þeirra saklausu karla, kvenna, barna, presta og biskupa sem var „slátrað án tilgangs“ á síðustu dögum Ottómans-veldisins.
Páfinn sagði þetta við messu í Péturskirkjunni í Róm en um þessar mundir er þess minnst að hundrað ár eru frá morðunum. Tyrkneskir fjölmiðlar hafa haldið því fram að tyrknesk yfirvöld hafi reynt að hvetja Frans páfa til þess að nota ekki hugtakið þjóðarmorð við messuna í dag.
Tyrkneskir leiðtogar eiga líka að hafa reynt að stöðva páfann í því að minnast fórnarlambanna á hundrað ára afmæli atburðanna, 24. apríl.
Samkvæmt frétt The Independent er páfinn tengdur Armenum sterkum böndum síðan hann starfaði sem biskup í Argentínu. Hann varði yfirlýsingu sína frá því í dag og benti á að sagnfræðingar geri ráð fyrir því að um 1,5 milljón Armena hafi verið teknir af lífi af Ottómanveldinu í kringum fyrri heimstyrjöld. Fjölmargir fræðimenn hafa einnig kallað morðin fyrsta þjóðarmorð tuttugustu aldarinnar.
Tyrkir neita þó að kallað það þjóðarmorð og halda því fram að dánartölurnar hafi verið ýktar.
Armenar hafa síðustu ár verið að berjast fyrir aukinni viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á morðunum. Í messunni í dag var armenski patríarkinn Nerses Bendros XIX Tarmouni heiðraður. Forseti Armeníu var viðstaddur messuna ásamt helstu leiðtogum armensku rétttrúnaðarkirkjunnar.
Samkvæmt frétt AFP hefur utanríkisráðuneyti Tyrklands boðað sendinefnd Vatíkansins til Ankara til þess að útskýra orðanotkun páfans. Tyrkneskir fjölmiðlar gera ráð fyrir því að opinber yfirlýsing muni berast frá ráðuneytinu seinna í dag.