„Kafbáturinn“ var venjulegur bátur

Sænski sjóherinn hratt af stað umfangsmikilli leit í skerjagarðinum við …
Sænski sjóherinn hratt af stað umfangsmikilli leit í skerjagarðinum við Stokkhólm eftir að sást til lítils kafbáts þar. AFP

Sænski herinn segir að mögulegur kafbátur sem sjónarvottar töldu sig sjá í skerjagarðinum í Stokkhólmi í haust hafi verið venjulegur bátur. Annar sjónarvottanna stendur þó fast við að um kafbát hafi verið að ræða. Rannsókn á því sem talið er hafa verið ferðir rússnesks kafbáts dagana á undan stendur hins vegar enn yfir. 

Það var dagana 17.-24. október í fyrra sem sænski herinn lagðist í mikla leit eftir að menn töldu sig hafa séð til lítils kafbáts í skerjagarðinum. Hefur helst talið að um rússneskan kafbát hafi verið að ræða.

Fyrrverandi sjóliðinn Sven Olof Kviman tók mynd af því sem virtist 20-30 metra langur svartur kafbátur í skerjagarðinum 31. október. Atvikið hefur ekki verið staðfest en nú segir flotaforinginn Anders Grenstad sem hefur stjórnað leitinni að sá bátur hafi aðeins verið hefðbundinn borgaralegur „vinnubátur“.

„Greining sýnir að myndin sem tekin var í innri hluta skerjagarðsins í Stokkhólmi var af minni bát,“ segir Grenstad við Dagens Nyheter í dag. Sjóherinn hafi upplýst ríkisstjórn Svíþjóðar um þetta í síðustu viku.

Rannsókn standi hins vegar enn yfir á ferðum kafbát í skerjagarðinum í október 2014 og það sé mat hersins að þar hafi raunverulega verið um ferðir kafbáts að ræða. Til standi að ljúka rannsókninni nú í vor.

Kviman, sem tók myndina sem um ræðir, er hins vegar enn sannfærður um það sem hann sá. Hann tók meðal annars þátt í að leita að sovéskum kafbátum í kalda stríðinu.

„Það er algerlega ómögulegt að við höfum rangt fyrir okkur. Það myndi þýða að bæði ég og konan mín værum litblind,“ segir Kviman.

Hann bendir einnig á að báturinn sem sjóherinn segir vera á myndinni sé mun minni en kafbáturinn. Eigandi bátsins segir einnig við Dagens Nyheter að hann sé vissulega á myndinni en ekki þar sem sjóherinn segir.

Frétt Dagens Nyheter af málinu 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert