Þúsundir Evrópubúa berjast í Sýrlandi

Sýrlenskt barn sést hér ganga fram hjá blóðpolli fyrir utan …
Sýrlenskt barn sést hér ganga fram hjá blóðpolli fyrir utan skólann sinn í Aleppo í gær. AFP

Allt bendir til þess að Evrópubúum sem berjast með skæruliðum í Sýrlandi eigi eftir að fjölga og þeir verði rúmlega sex þúsund talsins innan skamms. Þeir eru nú á milli fimm og sex þúsund talsins.

Þetta kemur fram í viðtali við Veru Jourviu, sem fer með dómsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í franska dagblaðinu Le Figaro í dag. Hún segir að mjög líklega sé talan mun hærri því erfitt sé að halda utan um upplýsingar um útlendinga sem taka þátt í átökunum í Sýrlandi.

„Eftir árásirnar í París og Kaupmannahöfn ákváðum við að við mættum ekki leyfa okkur að láta hræðslu ráða för,“ segir hún í viðtalinu og vísar þar til árásanna í París í janúar og Kaupmannahöfn í febrúar.

Jouriva segir að það sé orðið of seint að reyna að eiga við þá sem þegar hafa farið og nú einbeiti ESB sér að því að koma í veg fyrir að svo margir fari frá Evrópu til Sýrland. Samkvæmt breskri rannsókn er það einkum ævintýraþrá, óánægja með stöðu sína og leiðindi sem helst skýra það að Evrópubúar taka sig upp og fara til Sýrlands að berjast. Þetta séu miklu frekar skýringar á brotthvarfi þeirra en trúarbrögð.

Hún segir að ESB ríkin hafi aukið samstarf milli lögreglu landanna og eins leyniþjónustur þeirra. 

Yfir 215 þúsund manns hafa verið drepnir í Sýrlandi frá því stríðið hófst þar fyrir fjórum árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka