Omar El-Hussein, sem skaut tvo til bana í skotárásum í Kaupmannahöfn í febrúar, deildi um tíma fangaklefa með manni sem var yfirlýstur stuðningsmaður hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams. El-Hussein sat þá inni fyrir líkamsárás með hníf. Þetta kemur fram í trúnaðarskýrslu sem danskir fjölmiðlar hafa fjallað um í dag samkvæmt frétt AFP.
Þar segir ennfremur að starfsmenn fangelsisins hafi þrisvar tilkynnt hann til yfirboðara sinna vegna öfgasinnaðra skoðana hans tengdum íslam áður en hann var færður í klefa með umræddum einstaklingi. Einnig segir í skýrslunni að lögreglan hafi grunað El-Hussein um að vilja fara til Sýrlands eftir að hann var látinn laus til þess að berjast. Hins vegar hafi lögreglunni ekki tekist að fá þær upplýsingar staðfestar.
El-Hussein var skotinn til bana af dönsku lögreglunni eftir að hann myrti danskan kvikmyndagerðarmann og í framhaldinu karlmann við bænahús gyðinga í Kaupmannahöfn tveimur vikum eftir að hann var látinn laus úr fangelsi. Þrátt fyrir ábendingar um annað taldi danska leyniþjónustan ekki að El-Hussein væri að skipuleggja árásir.