Becky Watts var kæfð

Becky Watts.
Becky Watts.

Becky Watts, sextán ára gömul stúlka sem myrt var fyrr á þessu ári, var kæfð og leiddi það til dauða hennar. Lögregla greinir frá þessu en lík hennar fannst brytjað niður í húsi í Bristol í Bretlandi. Stúlkan var borin til grafar í dag og tóku mörg hundruð manns þátt í athöfninni.

Sumir klæddust bol með mynd af Watts og hentu bleikum rósum á hestvagn sem notaður var til að flytja kistu hennar til og frá kirkjunni.

Stúlkan hvarf frá heimili sínu þann 19. febrúar sl. Umfangsmikil leit var gerð að henni og fannst lík hennar ellefu dögum eftir hvarf hennar.

Við athöfnina í dag las presturinn minningarorð um sem faðir Watts skrifaði um hana. Þar kom fram að stúlkan og fjölskylda hennar hefðu átt mjög erfitt þegar hún gekk í gegnum grunnskólann en þar varð  hún fyrir miklu einelti.

Gerðu nemendurnir ítrekað grín að vaxtarlagi hennar og svo fór að hún veiktist alvarlega af lystarstoli. Með góðri hjálp lækna og foreldra hennar náði hún þó fullri heilsu á ný.

Stjúpbróðir Watts hefur verið ákærður fyrir morðið og þá hefur kærasta hans verið ákærð fyrir að hindra framgang réttvísinnar. Þau munu koma fyrir dómara í ágúst.

Frétt mbl.is: Sex ákærðir vegna morðsins á Watts

Frétt mbl.is: Stúlkan myrt með grimmilegum hætti

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert