„Ég var þar“

Auschwitz-Birkenau
Auschwitz-Birkenau AFP

Í sjö áratugi hefur Oskar Gröning þurft að glíma við erfiðar minningar en hann var fangavörður í útrýmingarbúðum nasista, Auschwitz, í seinni heimstyrjöldinni. Hann segist aldrei hafa fundið innri frið og verið hundeltur af fortíðinni alla tíð.

Hann neitar því að bera ábyrgð á fjöldamorðum í útrýmingarbúðunum. Á þriðjudaginn verður dæmt í máli gegn Gröning, sem er 93 ára, um ábyrgð hans á morðum á 300 þúsund manns. 

Ólíkt flestum öðrum fangavörðum SS þá hefur Gröning, sem var nefndur „bókari Auschwitz“, rætt um hvað hann gerði og hvað hann sá á meðan helförinni stóð. 

Húðflúrið O það eina sem minnir á unga manninn

Nú sem viðkvæmt gamalmenni er fátt sem minnir á unga hermanninn með þunnu gleraugun sem sést á svarthvítum stríðsmyndum fyrir utan húðflúr á vinstri hönd, „O“ sem er blóðflokkur hans. 

Gröning var tvítugur að aldri þegar hann bauð sig fram til starfa fyrir Waffen SS enda heillaður af SS búningunum og ákafanum sem fylgdi stríðinu árið 1941.

Hans helsta starf í Auschwitz var að flokka peninga sem stolið var frá gyðingum sem teknir voru af lífi eða notaðir í þrælahaldi búðanna. Pólsk slot, grískar drakkmör, franskri frankar, hollensk gyllini og ítalskar lírur. Hann segist aldrei hafa lagt hendur á fanga og ítrekar að það leysi hann undir ábyrgðinni á fjöldamorðunum. Sem það gerði, allt þar til nýverið, samkvæmt þýskum lögum.

„Saga hans, saga Þýskalands, er saga tælingar og ofstækis, af hálfu illvirkja og vitorðsmanna þeirra. Að lifa við sektarkennd og leit af öðrum hugmyndum um sekt,“ segir í þýska vikuritinu Der Spiegel árið 2005 eftir að tímaritið birti langt viðtal við Gröning.

„Þetta er saga manns sem reynir að komast yfir fortíð sem er svo dimm að hún getur aldrei horfið,“ segir í Spiegel.

Gröning fæddist árið 1921 skammt frá Bremen og fjölskylda hans var afar þjóðrækin. Hann missti móður sína fjögurra ára gamall og ólst upp hjá föður sem var félagi í hernaðarhóp sem nefndist Der Stahlhelm, eða Stálhjálmurinn. Gröning gekk til liðs við ungliðahreyfingu þar sem andúð á gyðingum var alls ráðandi.

Þegar Spiegel tók viðtalið missti hann sig í minningarnar og söng lag frá ungdómsárum sínu þar sem meðal annars segir í textanum: „Og þegar blóð gyðinga byrjar að leka af hnífum okkar verður allt gott á nýjan leik.“ 

Rifjaði upp morð á ungu barni

Að sögn Grönings þá vissu krakkarnir á þessum tíma ekki hvað textinn þýddi sem þau voru að syngja.

Síðar rifjar Gröning upp það sem hann upplifði og sá í útrýmingarbúðunum, til að mynda þegar SS vörður drap lítið barn. „Grátur barnsins fór í taugarnar á honum,“ segir Gröning. „Hann sló höfði barnsins í járnhlið pallbílsins þar til barnið þagnaði.“

Hann segist hafa óskað eftir því að vera fluttur í fremstu víglínu en verið synjað. Því var hann áfram vörður í útrýmingarbúðunum þar sem sem hermenn eyddu kvöldunum við spilamennsku og drykkju og gerðu stundum að leik sínum að skjóta ljósaperur í stað þess að slökkva ljósið með hefðbundnum hætti. Í september 1944 var hann sendur til Ardennes að berjast við bandamenn.

„Ég sá allt.“

Þegar hann snéri heim aftur eftir að hafa verið stríðsfangi í Bretlandi, kvæntist hann og eignaðist tvo syni. Hann starfaði við launaútreikninga í glerverksmiðju. En fortíðin bankaði á dyr árið 1985 er félagi hans í frímerkjasafnaraklúbbi færði honum bók sem skrifuð var af manni sem neitaði tilvist helfararinnar. 

Gröning skilaði bókinni með eftirfarandi skilaboðum: „Ég sá allt. Gasklefana, líkbrennslur, val á fórnarlömbum... Ég var þar.“

Í kjölfarið skrifaði hann endurminningar fyrir fjölskylduna þar sem hann deildi með þeim því sem hann upplifði. Endurminningarnar, sem eru 87 blaðsíður að lengd, rötuðu síðan í hendur þýskra fjölmiðla og í heimildarmynd BBC árið 2003.

„Ég myndi lýsa mínu hlutverki sem litlu tannhjóli í gangskiptingu,“ útskýrir Gröning. „Ef þú getur lýst þessu sem sök þá er ég sekur. Lagalega séð er ég saklaus.“

Fyrir nokkrum vikum spurði blaðamaður Die Welt Gröning hvort hann myndi tjá sig við réttarhöldin. Svarið var einfalt: „Já ef ég verð á lífi.“ 

Blaðamaðurinn varpaði þá fram annarri spurningu: „Ein spurning til viðbótar herra Gröning. Ertu sekur?“ „Nei,“ sagði Gröning, „vertu blessaður.“

Independent

BBC

Der Spiegel á ensku

Meira á BBC

AFP
AFP
Oskar Gröning
Oskar Gröning AFP samsett mynd
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert