Vilja ekki fríverslun við Bandaríkin

Mikil andstaða er við fyrirhugaðan fríverslunarsamning á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna í Þýskalandi samkvæmt frétt AFP. Viðræður um samninginn hófust 2013 og standa enn yfir. Óvíst er hvenær þeim verður lokið en svartsýnustu spár gera ráð fyrir að það muni taka mörg ár enn.

Fram kemur í fréttinni að þannig séu 43% Þjóðverja þeirrar skoðunar að fríverslunarsamningurinn hefði slæmar afleiðingar fyrir hagsmuni Þýskalands samkvæmt skoðanakönnun fyrirtækisins YouGov en 30% telja að áhrif hans yrðu góð. Haft er eftir sérfræðingum að vegna þeirrar staðreyndar að Þýskaland er öflugasta hagkerfi Evrópusambandsins skipti umræðan þar í landi miklu máli fyrir framhaldið.

Frjáls félagasamtök og verkalýsðfélög hafa beitt sér mjög gegn fríverslunarsamningnum í Þýskalandi og hafa verið haldnar fjölmennar mótmælagöngur gegn honum og miklum fjölda undirskrifta safnað í sama tilgangi. Hundruð mótmælafunda fóru fram í dag gegn samningnum víðs vegar um heiminn og þar af um 200 í ýmsum borgum og bæjum Þýskalands.

Andstæðingar fríverslunarsamningsins óttast meðal annars áhrif hans á heilbrigðisþjónustu í ríkjum Evrópusambandsins. Þá er ótti við að verið sé að opna markað sambandsins fyrir kapitalískum fyrirtækjum í Bandaríkjunum. Njósnir bandarískra leyniþjónustustofnana í Þýskalandi hafa sömuleiðis aukið á andstöðu við samninginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka