Danska lögreglan hefur staðfest að fjölmargar hryðjuverkahótanir hafi borist í sama hverfi Kaupmannahafnar að undanförnu.
Um er að ræða sama hverfi, Østerbro, og kvikmyndagerðarmaður var skotinn til bana í febrúar sl.
Fréttavefurinn The Local greinir frá þessu og vísar í frétt TV2.
Segir meðal annars í hótunarbréfi að árásin verði þannig að árásin hinn 14. febrúar minni helst á hrekk í samanburði.
Einhver hótunarbréfanna fundust í menningarmiðstöðinni Krudttønden þar sem Omar El-Hussein skaut Finn Nørgaard til bana á fundi þar sem málfrelsið var meðal annars til umræðu.
El-Hussein skaut síðar þetta sama kvöld Dan Uzan, öryggisvörð í bænahúsi gyðinga, til bana. Nokkrir lögreglumenn særðust áður en El-Hussein var skotinn til bana af lögreglu. Samkvæmt frétt TV2 var hótunarbréfunum einnig komið fyrir á minningarreit um Nørgaard.
Fimm menn voru handteknir grunaðir um að hafa aðstoðað El-Hussein, sem var 22 ára Dani af palestínskum uppruna. Þeir sitja allir í gæsluvarðhaldi.