Upprættu umfangsmikið smygl á hrossakjöti

Mynd frá 26. febrúar 2013 þegar upp komst um að …
Mynd frá 26. febrúar 2013 þegar upp komst um að hrossakjöt var merkt sem nautakjöt í tilbúnum réttum víðs vegar um Evrópu. AFP

Lögregluembætti sjö Evrópulanda handtóku í gær 26 manns sem talin eru hafa verið viðriðin smygl á hrossakjöti. Um tvö ár eru frá því að upp komst um að hrossakjöt hefði verið markaðssett og selt sem nautakjöt í hillum verslana landa um alla Evrópu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá réttaraðstoð Evrópusambandsins, Eurojust, og segir þar að áhlaupið hafi verið samhæfð aðgerð Eurojust og franskra yfirvalda „og tókst að uppræta skipulagða glæpastarfsemi sem stundaði viðskipti með ólöglegt hrossakjöt.“

Hundruðir lögreglumanna og embættismanna frá Frakklandi, Belgíu, Þýskalandi, Írlandi, Lúxemborg, Hollandi og Bretlandi tóku þátt í aðgerðinni samkvæmt upplýsingum frá Eurojust.

Skrifstofa ríkissaksóknara í Hollandi sagði þrjá einstaklinga hafa verið handtekna í landinu og að frönsk yfirvöld séu þegar búin að fara fram á að þremenningarnir verði framseldir til Frakklands. Þá hafa fjölmiðlar í Belgíu greint frá því að fjórir belgískir ríkisborgarar, þar á meðal meintur höfuðpaur smyglhringsins, hafi verið handteknir í Frakklandi.

Belgi er talinn höfuðpaur smyglhringsins

Eurojust hefur staðfest að belgískur ríkisborgari sé grunaður um að vera höfuðpaur hrossakjöts smyglhringsins en hrossakjötið var ekki ætlað til manneldis. Snýr rannsóknin því m.a. að skjalafölsun á gögnum frá heilbrigðisstofnunum.

Belginn, sem starfaði utan heimalands síns, hefur verið undir smásjá lögreglunnar í Belgíu frá því í nóvember árið 2012 að sögn Eurojust, sem er með höfuðstöðvar sínar í Haag.

Heimildarmaður AFP-fréttaveitunnar innan franska dómsmálakerfisins segir að fleiri handtökur hafi farið fram í Þýskalandi og Belgíu. Frönsk yfirvöld áætla að um 4.700 hrossum hafi verið smyglað á árunum 2010 til 2013 inn í matvælaiðnaðinn en þeim var slátrað í sláturhúsi í suðurhluta Frakklands skv. heimildum AFP.

Í áhlaupi lögreglu var lagt hald á auglýsingar, skjöl, lyf, örflögur, tölvubúnað og 37 þúsund evrur í reiðufé, sem jafngildir um fimm og hálfri milljón íslenskra króna. Þá voru vegabréf yfir 800 hrossa gerð upptæk.

Eitt stærsta matvælahneyksli Evrópu fyrr og síðar

Á fyrstu mánuðum ársins 2013 kom upp mikið hneyksli í Evrópu eftir að DNA-rannsókn matvælastofnunar Írlands á kjötafurðum stórs matvælaframleiðanda leiddi í ljós að um 37 prósent hamborgaranna innihéldu hrossakjöt. Í framahaldinu komst upp um svipaðar blekkingar hjá matvælaframleiðendum víðs vegar um Evrópu.

Voru því milljónir kjötbolla, pylsna, hamborgara og tilbúna rétta teknar úr verslunum og hefur því verið haldið fram að hrossakjötsmálið sé eitt stærsta matvælahneyksli Evrópu fyrr og síðar.

Fyrr í þessum mánuði dæmdi hollenskur dómstóll Willy Selten, matvælaframleiðenda, í tveggja og hálfs árs fangelsi vegna lögbrota hans í hrossakjötsmálinu. Hann var sakfeldur fyrir að falsa gögn sem sýndu 300 tonn af hrossakjöti sem hreint nautakjöt.

Eurojust hefur ekki gefið út hvort aðgerðir lögreglu í gær tengist hneykslinu árið 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka