Réttarhöld yfir James Holmes, sem hóf skothríð í kvikmyndahúsi í Colorado í Bandaríkjunum árið 2012 hefjast í vikunni. Tólf létu lífið og sjötíu særðust þegar að Holmes hóf skothríð inn í sal kvikmyndahússins. Fórnarlömbin voru bíógestir á kvikmyndinni The Dark Knight Rises.
Samkvæmt frétt Sky News mun Holmes, sem er fyrrum nemi í taugavísindum, lýsa yfir sakleysi sínu og ber við að hann þjáist af geðveilu. Saksóknarar ætla þó að reyna að tryggja dóm yfir manninum og mögulega dauðarefsingu. Vilja þeir sýna fram á að Holmes hafi ekki verið andlega veikur þegar að glæpurinn var framinn.
Þann 20. júlí 2012 gekk Holmes inn á miðnætursýningu The Dark Knight Rises, klæddur í skothelt vesti. Hann kastaði táragasi inn í salinn og hóf skothríð. Þegar að sjálfvirkur riffill hans hætti að virka notaði hann haglabyssu. Einn þeirra sem lifði árásina af, Marcus Weaver, lýsti atburðarrásinni í viðtali hjá Sky News. Weaver faldi sig undir sætum sínum ásamt vinkonu sinni Rebecca Wingo. Weaver var skotinn í öxlina en Wingo lést.
„Þegar ég sat þarna í skítnum á gólfinu með popp í andlitinu, man ég eftir því að fólk steig á mig á leiðinni út og AR-15 byssukúlur flugu framhjá höfðinu mínu og höfnuðu í sætinu mínu,“ sagði Weaver. „Ef ég hefði verið kyrr þar sem ég var væri ég ekki hér að tala við þig í dag. Ég sat á gólfinu og hann bara skaut, skaut og skaut, aftur og aftur og aftur.“
Það hefur tekið þrjá mánuði að velja kviðdóm í málinu, en 9000 voru boðaðir. Þeir þurftu allir að fylla út spurningarlista sem átti að prófa skoðun þeirra á glæpum, andlegum veikindum, þekkingu þeirra á málinu og skoðun þeirra á dauðarefsingum. Af þeim hafa tólf verið valdir til þess að sitja í kviðdómi og tólf varamenn. Samkvæmt frétt Sky News lifði einn þeirra af annað fjöldamorð í Colorado, þegar að tveir unglingsdrengir hófu skothríð í Columbine menntaskólanum árið 1999. Þá létust þrettán manns.
Weaver segist hafa fyrirgefið Holmes en trúir því ekki að hann hafi verið andlega veikur þegar að ódæðið var framið. Weaver kallaði glæpinn „skipulagðan og svívirðilegan“.
Weaver verður viðstaddur réttarhöldin og mun hann bera vitni seinna í vikunni. Foreldrar Holmes verða einnig viðstaddir en þau halda því fram að hann sé ekki skrímsli og hafa beðist vægðar fyrir son sinn.