Þögull og vel snyrtur

James Holmes. Myndin er frá 2012.
James Holmes. Myndin er frá 2012. AFP

Réttarhöld hófust í dag yfir fjöldamorðingjanum James Holmes, sem skaut 12 til bana í kvikmyndahúsi í Aurora í Colorado 20. júlí 2012. Holmes, sem segist saklaus sökum andlegra veikinda, hlustaði yfirvegað á það sem fram fór í dómsalnum, með snyrt hár og skegg.

Margir tengja nafnið James Holmes við ólíka mynd; aumlegan ungan mann með villt appelsínugult hár, en þannig birtist hann í fréttaflutningi af hinni óhugnalegu árás, sem átti sér stað þegar sýning á nýjustu Batman-myndinni stóð yfir.

Þá fóru sögur af því að Holmes hefði verið í dulargervi Jókersins, erkióvinar ofurhetjunnar, þegar hann lét kúlunum rigna yfir bíógesti. Alls særðust 70 í árásinni.

Holmes á yfir höfði sér dauðarefsingu ef hann verður dæmdur sekur, en réttarhöldin munu að öllum líkindum snúast um hvort hann hafi verið með réttu ráði þegar hann lét til skarar skríða.

Verjendur Holmes freista þess enn að koma í veg fyrir að kviðdómendum verði sýndar myndir frá vettvangi, þ. á m. 90 mínútna hljóðlaust myndband sem tekið var upp inni í kvikmyndahúsinu.

Ákæruvaldið hefur sagt að Holmes hafi haft á sér nægilegt magn skotfæra til að myrða alla viðstadda og þá reyndist hann hafa komið fyrir fjölda sprengja fyrir heima hjá sér sem lögregla þurfti að glíma við.

Verði það niðurstaða kviðdómsins að sýkna Holmes sökum andlegra veikinda, verður hann lagður inn á geðsjúkrahús. Til að vera útskrifaður þaðan þyrftu læknar að komast að þeirri niðurstöðu að hann væri læknaður og hættulaus sjálfum sér og öðrum.

Lögmenn segja ólíklegt að það myndi gerast, þar sem engin geðlæknir myndi vilja skrifa upp á það að sleppa honum lausum.

Frétt mbl.is: Andlega veikur eða skipulagður morðingi?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert