Áfrýjunardómstóll í Suður-Kóreu hefur dæmt skipstjóra ferju sem sökk fyrir ári síðan sekan um að bera ábyrgð á dauða þeirra 304 sem fórust. Dómstóllinn þyngdi dóm undirréttar og er honum gert að sitja í fangelsi það sem eftir er ævinnar.
Undirréttur í borginni Gwangju sýknaði skipstjórann, Lee Jun-Seok, af ákæru um morð í nóvember og dæmdi hann sekan um alvarlega vanrækslu í starfi og dæmdi hann í 36 ára fangelsi.
Flestir þeirra sem fórust með ferjunni voru menntaskólanemar í skólaferðalagi og brugðust fjölskyldur þeirra hart við niðurstöðu undirréttar.
Saksóknarar kröfðust þess að Lee, sem er 69 ára að aldri, yrði tekinn af lífi vegna þess að hann hafi yfirgefið farþega ferjunnar þrátt fyrir að hann hafi vitað að þeir myndu farast. Óábyrg hegðun hans hafi valdið dauða ungra námsmanna.
Ferjan Sewol sökk suðvestur af Suður-Kóreu þann 16. apríl í fyrra. Flestir um borð voru menntaskólanemar á leið til ferðamannaparadísarinnar Jeju.