Afþakka fleiri björgunarsveitir

Stjórnvöld í Nepal biðja erlendar leitar- og björgunarsveitir um að koma ekki til landsins því það er nægur mannskapur til þess að sinna því starfi nú þegar í Nepal. Yfir fimm þúsund fórust og yfir tíu þúsund slösuðust í jarðskjálftanum sem reið yfir landið á laugardag.

Samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum telja yfirvöld í Nepal að nógu margir útlendir sérfræðingar séu komnir til Katmandú og ekki sé þörf á fleirum til þess að taka þátt í björgunarstarfinu. Þeir sem þegar eru lagðir af stað geta komið en óskað er eftir því að fleiri leggi ekki af stað.

Mjög hefur reynt á starfsmenn flugvallarins í Katmandú enda er einungis ein flugbraut þar og mikið álag við að taka á móti flugvélum með hjálpargögn og erlenda sérfræðinga. 

Frönsk herþota með hjálpargögn og sjúkraliða er föst á flugvellinum í Abu Dhabi þar sem hún gat ekki fengið heimild til þess að lenda í Katmandú í dag, samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar úr frönsku utanríkisþjónustunni.

Að sögn SÞ er mögulegt að bjarga fólki í sjö til níu daga eftir hamfarir sem þessar. Nú er hjálparstarfið á fjórða degi. 

Hjálp er byrjuð að berast til afskekktari héraða en enn er unnið að því að veita aðstoð í Katmandú þar sem hundruð þúsunda íbúa hefur misst heimili sín. Margir þeirra eru án matar og vatns og þörfin gríðarleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert