Sænskum yfirmanni hjá friðargæslusveitum Sameinuðu þjóðanna, Anders Kompass, hefur verið vikið frá störfum þar sem hann er grunaður um að hafa lekið trúnaðarupplýsingum til franskra stjórnvalda vegna aðgerðarleysis SÞ að stöðva ofbeldi gagnvart börnum í Mið-Afríkulýðveldinu.
Samkvæmt frétt Guardian er um innanhúss skýrslu að ræða um nauðganir franskra friðargæsluliða á börnum í Mið-Afríkulýðveldinu.
Heimildir Guardian herma að Kompass hafi komið skýrslunni til franskra yfirvalda þar sem honum ofbauð aðgerðarleysi SÞ. Samkvæmt skýrslunni beittu franskir hermenn í friðargæslustörfum á vegum SÞ börn niður í níu ára aldur kynferðislegu ofbeldi. Franskir hermenn eru meðal þátttakenda í alþjóðlegu friðargæsluliði í Mið-Afríkulýðveldinu.
Kompass, sem starfar hjá SÞ í Genf í Sviss, var vikið frá störfum sem svæðisstjóri í síðustu viku og sakaður um að hafa lekið trúnaðarupplýsingum og brotið þar siðareglur SÞ.
Í frétt Guardian kemur fram að Kompass, sem hefur starfað við mannúðarstörf í meira en þrjátíu ár verði væntanlega rekinn frá SÞ.
Ofbeldið á að hafa átt sér stað í fyrra þegar friðargæslusveit á vegum SÞ var þar.
Guardian hefur skýrsluna undir höndum og fékk hana frá samtökunum Aids Free World, sem krefjast þess að sjálfstæð rannsókn fari fram á því hvernig SÞ taka á málum tengdum kynferðislegu ofbeldi af hálfu friðargæsluliða.
Viðtöl við börn sem urðu fyrir ofbeldinu voru tekin í maí og júní í fyrra og voru það starfsmenn mannréttindaskrifstofu SÞ og Unicef sem önnuðust þau. Drengirnir, en hluti þeirra eru munaðarlausir, urðu fyrir margháttuðu ofbeldi, svo sem nauðgunum og öðru kynferðislegu ofbeldi af hálfu franskra hermanna á tímabilinu desember 2013 til júní 2014. Ofbeldið fór fram í miðstöð fyrir fólk sem hefur þurft að flýja heimili sín á M'Poko flugvellinum í höfuðborginni, Bangui.
Börnin lýstu því hvernig þau voru notuð kynferðislega í stað þess að fá mat og peninga. Einn ellefu ára drengur lýsti því hvernig honum var nauðgað þegar hann var úti að leita að einhverju til að borða. Níu ára lýsti því hvernig hann og vinur hans voru beittir ofbeldi af hálfu tveggja franskra hermanna þegar þeir komu á eftirlitsstöð í matarleit.
Barnið lýsti því hvernig hermennirnir hafi neytt hann og vin hans til kynmaka. Í skýrslunni er lýst þeim hryllingi sem drengurinn upplifði eftir árásina og hvernig hann flúði miðstöðina á flugvellinum í kjölfarið. Einhver barnanna gátu gefið greinargóðar lýsingar á þeim hermönnum sem beittu þau ofbeldi.
Það var í fyrrasumar sem yfirmenn mannréttindaskrifstofu SÞ í Genf fékk skýrsluna í hendurnar. En þegar ekkert var að gert sendi Kompass skýrsluna til franskra yfirvalda sem sendu sendinefnd til Bangui og hófu sjálfstæða rannsókn.