Valdið félaginu varanlegum skaða

Brotlending farþegaþotu lággjaldaflugfélagsins Germanwings hefur valdið móðurfélagi þess, þýska flugfélaginu Lufthansa, varanlegum skaða. Þetta kom fram í ræðu sem Carsten Spohr, framkvæmdastjóri Lufthansa, flutti á ársfundi félagsins í Hamborg í Þýskalandi í morgun samkvæmt frétt AFP.

Fundurinn hófst með mínútuþögn í virðingarskyni við þá sem létu lífið þegar farþegaþotan fórst 24. mars. Minningabók lá ennfremur frammi á fundinum þar sem hluthafar í félaginu gátu ritað nöfn sín. Rannsóknargögn sýna að aðstoðarflugmaður þotunnar, Andreas Lubitz, brotlenti henni vísvitandi eftir að hafa læst flugstjórann fyrir utan flugstjórnarklefann. 150 manns voru um borð og létust þeir allir.

Spohr sagði harmleikinn hafa haft varanlegar breytingar í för með sér fyrir Lufthansa og valdið því varanlegum skaða. Sagði hann Lufthansa standa með og styðja fjölskyldur og vini þeirra sem fórust með farþegaþotunni. „Við teljum það ekki aðeins skyldu okkar heldur eitthvað sem mikil þörf er á.“ Hét hann því að lögð yrði enn frekari áhersla á öryggismál hjá félaginu en áður.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert