Dómstóll norðvesturhluta Pakistans dæmdi í dag tíu karlmenn í lífstíðarfangelsi fyrir að reyna að myrða nóbelsverðlaunahafann Malölu Yousafzai árið 2012.
„Tíu menn sem tengdust árásinni á Malölu Yousafzai hafa verið dæmdir í lífstíðarfangelsi,“ segir starfsmaður dómstólsins við AFP-fréttastofuna. Lögmaður sem var viðstaddur uppkvaðninguna hefur staðfest þessar fréttir.
Árásarmennirnir fóru um borð í skólabíl sem Malala var í í október árið 2012 og skutu hana í höfuðið. Hún hafði þá, þrátt fyrir að vera á unglingsaldri, tjáð sig opinberlega um menntun stúlkna í Pakistan. Tvær vinkonur Malölu særðust einnig í árásinni.
Malala Yousafzai hlaut friðarverðlaun nóbels árið 2014 fyrir baráttu sína fyrir menntun kvenna í Pakistan.